Fréttir

Svör stjórnmálaflokka – 2 af 5

Um hámark innheimtukostnaðar og eftirlit með innheimtustarfsemi

Neytendasamtökin eru frjáls félagasamtök sem standa vörð um og efla réttindi neytenda. Við erum öll neytendur og því afar mikilvægt að stjórnmálaflokkar hafi skýra stefnu í neytendamálum og að neytendur séu upplýstir um hana, ekki síst nú í aðdraganda Alþingiskosninga. Stjórn Neytendasamtakanna sendi stjórnmálaflokkum sem bjóða sig fram til alþingis fimm spurningar og óskaði svara. Hér er önnur spurningin og svör flokkanna við henni:

Neytendasamtökin vilja að sett verði hámark á innheimtukostnað líkt og víða í löndum í kringum okkur og að eftirlit með allri innheimtustarfsemi verði á einni óháðri hendi, en ekki að félagasamtök hafi eftirlit með félagsmönnum sínum sem sinna innheimtustarfsemi líkt og nú er. Hver er afstaða flokksins til þess? Hvaða endurbótum mun flokkurinn vinna að á þessu sviði á næsta kjörtímabili og hvernig?

Flokkur fólksins
Flokkur fólksins er heilshugar fylgjandi því að núgildandi reglugerð um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar fyrir frum- og milliinnheimtu verði endurskoðuð, ásamt því að settar verði sambærilegar reglur um hámarksfjárhæð kostnaðar vegna löginnheimtu. Við viljum leggja fram þingsályktunartillögu þess efnis á næsta kjörtímabili. Það er ólíðandi að innheimtufyrirtæki getið komið sér undan starfsleyfisskyldu og fjármálaeftirliti með því einu að vera í eigu lögmanna. Með hliðsjón af réttaröryggi, jafnræði og samkeppnisstöðu ættu öll fyrirtæki, sem sérhæfa sig í innheimtu, að falla undir sömu reglur óháð eignarhaldi. Frumvarp um slíka breytingu á innheimtulögum er tilbúið. Við ætlum að leggja frumvarpið fram á næsta kjörtímabili og berjast fyrir því að það verði samþykkt.

Miðflokkurinn
Þarna er brýnt að tryggja að ekki sé gengið of nærri skuldurum í veikri stöðu og Miðflokkurinn er tilbúinn að skoða leiðir til þess eins og hann hefur ávallt gert. Þingmenn Miðflokksins hafa í ræðu og riti viljað treysta stöðu skuldara og meðal annars flutt svokallað lyklafrumvarp á síðasta þingi. Markmið frumvarpsins er að stuðla að vandaðri lánastarfsemi með því að færa skuldurum að fasteignalánum í hendur þann möguleika að láta af hendi veðandlag lána sinna. Frumvarpið var eitt af forgangsmálum þingflokks Miðflokksins á liðnu þingi og verður það áfram.


Samfylking – Jafnaðaramannaflokkur Íslands
Samfylkingin telur mikilvægt að settur verði hámark á innheimtukostnaði og tekur undir kröfu Neytendasamtakanna þess efnis. Það er mikilvægt að eftirlit með innheimtustarfsemi sé óháð og því þarf að breyta núverandi fyrirkomulagi. Nauðsynlegt er að endurskoða lögin um innheimtu.
Það ber að koma í veg fyrir að fyrirtæki, þá ekki síst smálánafyrirtæki en þó ekki eingöngu, veiti fólki lán á okurvöxtum eða greiðsludreifingu, en oft ef nánar væri athugað þá getur viðkomandi ekki staðist undir greiðslum. Það þarf að gera skýrari ábyrgð fyrirtækja að norrænni fyrirmynd á því að kanna greiðslugetu lántakenda og tryggja stöðu neytenda í þeim efnum þannig að ef fyrirtækið hefur ekki gert viðeigandi athuganir um greiðslugetu viðkomandi eða veitt þeim lán eða greiðsludreifingu sem er umfram það sem mætti eðlilegt teljast, að þá fái neytandinn að njóta vafans. Að fyrirtæki geti sankað að sér greiðslum í nafni löginnheimtu, þar sem ekkert þak er, grefur undan lífsviðurværi fólks og ýtir undir ójöfnuð, sér í lagi þar sem það eru oft viðkvæmir hópar sem leitast í smálán eða þurfa á greiðsludreifingu að halda.
Það að ekkert hámark er á innheimtukostnaði á vanskilum einstaklinga til ríkisins, til að mynda vegna vangoldinna greiðsla á námslánum, gerir það að verkum að ekkert þak er á löginnheimtu og það í boði ríkisins. Það er mikilvægt að löginnheimta sem er á vegum ríkisins og framkvæmd er af einkaaðilum sé boðin út til þess að tryggja samkeppni, sé hún ekki framkvæmd af fulltrúum sýslumanns eða annarra ríkisstofnanna. Það er ótækt að einkaaðilar geti gert upp himinháar kröfur í nafni löginnheimtu sem framkvæmd er á vegum ríkisins.

Sósíalistaflokkur Íslands
Að sjálfsögðu á að vera fyrir löngu búið að setja þak á innheimtukostnað og að eftirlit með slíkri starfsemi verði á hendi þar til bærs stjórnvalds. Einnig þarf að endurskoða með afgerandi hætti heimildir fyrirtækja, sérstaklega fjármálastofnana, varðandi allan þann kostnað sem velt er yfir á notendur, færslugjöld, lántökugjöld, kortagjöld, umsýslugjöld og þess háttar sem viðskiptavinurinn er berskjaldaður gagnvart, og krefjast ítarlegs rökstuðnings á þeim gjöldum og kostnaðinum sem raunverulega liggur að baki.

Sjálstæðisflokkurinn
Í tengslum við endurskoðun á stjórnskipan neytendamála og eftirliti á sviði neytendaverndar er nauðsynlegt að endurskoða innheimtulög nr. 95/2009 í heild sinni. 

Viðreisn
Almennt er mjög óheppilegt að fela aðilum að hafa eftirlit með sjálfum sér án þess að því fylgi skýr rammi og ytra eftirlit með því að starfsemi sé innan setts ramma. Innheimta fjárkrafna og kostnaður sem því fylgir er eitt slíkt dæmi. Sá sem innheimta beinist að, neytandinn, er býsna varnarlaus gagnvart kostnaðinum sem fylgir innheimtu. Viðreisn er tilbúin til þess að leita leiða, í samráði við Neytendasamtökin og aðra hagaðila, til þess að sá kostnaður sé í samræmi við útgjöld þess sem innheimtir.

Vinstri hreyfingin – Grænt framboð
Í stefnu VG er ekki sérstaklega fjallað um innheimtukostnað. Þó er hægt að taka undir þau sjónarmið að það yrði til bóta ef einhvers konar hámarksfjárhæð eða viðmiðunarfjárhæð fyrir löginnheimtu yrði sett, líkt og þegar er gert með kostnað af fruminnheimtu og milliinnheimtu. Slíkt yki fyrirsjáanleika og neytendavernd.
Jafnframt verður að skýra og efla valdheimildir eftirlitsaðila með neytendamálum. Æskilegt væri ef tekin yrði afstaða til þessara atriða í heildarendurskoðun á löggjöf um neytendamál með það markmið að auka rétt og vernd neytenda.

Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn
Flokkurinn tekur undir ályktun NS og vill beita sér fyrir lagabreytingum þar sem að sett verður þak á innheimtukostnað og strangt eftirlit verði með hverskyns innheimtustarfsemi.

Píratar
Píratar vilja gagnsæjar og sanngjarnar reglur gagnvart neytendum. Það þýðir að kostnaður á að vera fyrirsjáanlegur og boðað til hans með sanngjörnum fyrirvara. Innheimtukostnaður verður að takmarkast við lánsfjárhæð yfir ákveðið tímabil þannig að það sé ekki hægt að búa endalaust til ný innheimtugjöld fyrir sömu vanskilin.

Framsóknarflokkurinn:
Ákveðnar reglur gilda um hámark á innheimtukostnaði skv. reglugerð. Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur meðal annars eftirlit með fyrirtækjum sem annast innheimtu, en þó ekki öllum sem stunda slíka starfsemi þar með talið lögmönnum.  Lögmannafélagið hefur þar eftirlitsskyldu og að því er skylduaðild, en mörkin á milli hafa verið talin óljós í sumum tilvikum.  Að auki hefur ýmis Evrópulöggjöf um neytendamál verið innleidd hérlendis vegna alþjóðlegra skuldbindinga okkar gegnum EES samninginn. Í þeirri úttekt sem nefnd er í svari við spurningu 1. þarf meðal annars að skoða þá þætti sem hér er komið inn á, það er hvar er hægt að setja hámörk á innheimtukostnað, þar sem þau eru ekki til staðar í dag og skoða hvort það eru einhverjir gallar á eftirlitinu sem nauðsynlegt er að lagfæra. Við erum tilbúin að vinna að því verkefni með samtökum neytenda eins og segir í svari við spurningu 1.

Fréttir í sama dúr

Bílastæðamál fyrir Hæstarétt

Baráttan um bílastæðin

Neytendablaðið er komið út

Aðalfundur 22. október

Staðan í Vaxtamálinu

Smálánabaráttan

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.