Fréttir

Svör stjórnmálaflokka – 5 af 5

Um brýn neytendamál sem unnið verður að á næsta kjörtímabili

Neytendasamtökin eru frjáls félagasamtök sem standa vörð um og efla réttindi neytenda. Við erum öll neytendur og því afar mikilvægt að stjórnmálaflokkar hafi skýra stefnu í neytendamálum og að neytendur séu upplýstir um hana, ekki síst nú í aðdraganda Alþingiskosninga. Stjórn Neytendasamtakanna sendi stjórnmálaflokkum sem bjóða sig fram til alþingis fimm spurningar og óskaði svara. Hér er fimmta og síðasta spurningin og svör flokkanna við henni:

Vinsamlega gerið í stuttu máli grein fyrir öðrum brýnum neytendamálum sem flokkurinn mun vinna að á næsta kjörtímabili.

Viðreisn
Viðreisn stendur fyrir frjálst og neytendavænt þjóðfélag.
Frjáls samkeppni er best til þess fallin að tryggja neytendum fjölbreytt úrval vöru, góða þjónustu og sanngjarnt verð. Auka má vöruúrval og stuðla að lækkuðu vöruverði með endurskoðun tolla. Einu afskipti ríkisins af samkeppnismarkaði ættu að vera virkt samkeppniseftirlit og öflug neytendavernd að teknu tilliti til alþjóðlegrar þróunar markaða og upplýsingagjöf til neytenda. Samkeppnislög skulu taka til allra atvinnugreina.
Bændur eiga að geta selt afurðir sínar beint til neytenda án hindrana af hálfu hins opinbera. Auka á gegnsæi í fasteignaviðskiptum með ástandsskoðun fasteigna og seljendatryggingu. Stofnanir ríkisins eiga að þjónusta almenning. Almenningur er neytandi þjónustu hins opinbera og kerfið á að starfa fyrir almenning en ekki í þágu stofnanna sjálfra.
Að mati Viðreisnar er eitt stærsta hagsmunamál neytenda að halda vöxtum og verðbólgu í skefjum og koma á stöðugleika í gengismálum. Það verður best gert með því að byrja á því að festa gengi krónunnar við evru og í framhaldinu taka upp evru og ganga í Evrópusambandið.
Virk samkeppni skiptir okkur öll máli. Hún skiptir máli fyrir neytendur vegna þess að á markaði ræðst hvaða vörur og þjónusta standa okkur til boða. Þar skiptir verð og þjónusta sköpum. Það má með sanni segja að það séu mannréttindi að geta búið í samfélagi þar sem samkeppni er virk og aðilar sem selja vöru og þjónustu séu sífellt undir vökulu auga sterks samkeppniseftirlits og sterkra neytendasamtaka.

Sjálfstæðisflokkurinn
Efla stjórnsýslu neytendamála með hagræðingu og samlegð að leiðarljósi. Nú þegar hafa verið stigin skref í þá átt með yfirfærslu verkefna frá Neytendastofu til Mannvirkjastofnunar og skynsamlegt er að stíga fleiri skref í yfirfærslu verkefna í þeim tilgangi.

Sósíalistaflokkurinn
Brýnt er að Neytendasamtökin fái opinberan stuðning og að Neytendastofa verði efld til muna, enda stendur almenningur mjög höllum fæti hvað jafnræði varðar þegar kemur að því að sækja rétt sinn. Þetta gildir um almennan neytendamarkað þ.e. vörur og þjónustu, fjármálastarfsemi, fasteignaviðskipti og öll þau svið þar sem viðskiptavinur býr ekki við fullt jafnræði í samskiptunum vegna skorts á upplýsingum eða yfirburðarstöðu seljanda.

Samfylking – Jafnaðarmannaflokkur Íslands
Samfylkingin styður að það verði gerð úttekt á stöðu samkeppnismála hér á landi með það að leiðarljósi að styrkja neytendavernd og að koma á ákveðnum stöðugleika. Það þarf að koma í veg fyrir að Neytendastofa sé holuð að innan í því skyni að fækka litlum stofnunum, frekar eigi að leita leiða til þess að styrkja Neytendastofu og önnur sambærileg samtök til þess að sinna verkefnum sínum betur.
Það þarf að horfa til nýrra tíma þegar það kemur að neytendamálum og þar er það að styrkja stöðu einstaklinga til þess að taka þátt í hópmálsóknum sérstaklega mikilvæg. Það á ekki síst við um loftlags- og umhverfismál, en einnig til rétt neytenda í hinum stafræna heimi. Málefni neytenda hér á landi hafa liðið fyrir hringlandahátt og skort á framtíðarsýn. Samfylkingin vill efla neytendavernd og auðvelda neytendum að leita réttar síns.

Miðflokkurinn
Miðflokkurinn vill horfa til hagsmuna neytenda á margvíslegan hátt og styrkja stöðu þeirra sem best. Það getur falist í lagasetningu og eflingu annara úrræða. Miðflokkurinn hefur lagt fram frumvörp sem styðja hlut neytenda þegar kemur að stöðu skuldara og hollustu matvæla. Miðflokkurinn hefur viljað jafna stöðu neytenda um allt land á sem flestum sviðum.  Miðflokkurinn mun áfram horfa til allra framfaramála þegar kemur að neytendum.

Flokkur fólksins
Eftirfarandi eru nokkur dæmi um neytendamál sem Flokkur fólksins vill vinna að á næsta kjörtímabili, en sú talning er þó alls ekki tæmandi:
– Afnám verðtryggingar lána til neytenda og skýlaus réttur neytenda með eldri verðtryggð lán til að fá þeim breytt yfir í óverðtryggð lán án íþyngjandi skilyrða eða kostnaðar.
– Stuðla að því að sögulega lágir stýrivextir skili sér að fullu til lækkunar á breytilegum vöxtum lána til neytenda.
– Efla og auka aðgengi neytenda að viðeigandi réttarúrræðum án íþyngjandi kostnaðar.
– Styrkja stöðu samtaka á sviði neytendaverndar og auka aðkomu þeirra að stefnumótun.
– Lyklafrumvarp: yfirtaka íbúðarhúsnæðis jafngildi fullnaðargreiðslu veðlána.
– Endurskoða regluverk um starfsemi fjárhagsupplýsingastofu.
– Endurskoða regluverk um innheimtustarfsemi.
Þetta eru ekki orðin tóm því Flokkur fólksins á flest framangreind atriði tilbúin til framlagningar á næsta kjörtímabili og önnur er auðvelt að útfæra eða sækja í aðrar smiðjur. Við erum alltaf opin fyrir því að vinna með hverjum sem er að góðum málefnum til hagsbóta fyrir neytendur.

Framsóknarflokkurinn
Við leggjum áherslu að fjármálakerfið þjóni fyrst og fremst heimilum og fyrirtækjum í landinu sem skapa störf og raunveruleg verðmæti á landsvísu. Gæta þarf sérstaklega hagsmuna neytenda og skattgreiðenda við skipulagningu fjármálakerfisins.
Við leggjum jafnframt áherslu á að neytendur eigi rétt á að vita við hvaða aðstæður og aðbúnað matur, innlendur sem erlendur, er framleiddur. Því þarf að krefjast að neytendur séu upplýstir um magn vaxtarhvetjandi lyfja, hormóna og sýklalyfja sem notaðar eru við framleiðslu sem og umhverfisfótspor framleiðslunnar. Uppruninn þarf ávallt að vera þekktur þ.e. framleiðslustaður og uppruni helstu innihaldsefna.

Píratar
Það þarf að auka gagnsæi fyrirtækja, til þess að vinna gegn kennitöluflakki. Það þarf að efla neytendavernd betur, sem er hægt að gera með því að tryggja starfsemi Neytendastofu og Samkeppniseftirlitsins betur en einnig óháða aðila eins og Neytendasamtökin. Píratar eru tilbúnir í samstarf um tiltekt í hinum ýmsu lögum vegna fjölmargra mála sem hafa fallið að undanförnu – svo sem vegna arðs af vatnsgjaldi, endastöðvargjalds Íslandspósts og reglu Icelandair um að fella niður tengimiða ef fólk mætir ekki. 
Kosningastefna Pírata var hugsuð sem neytendavæn stefna og sérstakar áherslur í neytendamálum birtast skýrt meðal annars í köflunum um aðgang að réttlæti, baráttu gegn spillingu, húsnæðismál, internet og netfrelsi, ungt fólk og framtíðina, orkumál og landbúnaðarmál. Segja má að vísað sé til neytendamála á einn eða annan hátt í öllum köflum kosningastefnunnar. Þannig sýnum við í orði hversu mikilvæg neytendamál eru og vonumst eftir umboði til þess að geta sýnt það í verki á næsta kjörtímabili.

Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn
Taka þarf almennt á þjónustu og vaxtamálum bankanna þegar kemur að lánamálum. Við þurfum sterka eftirlitsaðila sem eru nógu sjálfstæðir til að standa í lappirnar og þora að taka ákvarðanir. Eins og er hefur Neytendastofa ekki nægilega burði til þess. “Við styðjum allar þessar breytingar sem NS setur hér fram. Löngu tímabærar. Þær er klárlega mikilvægar til hagsbóta fyrir neytendur og ættu fyrir löngu að hafa komið fram og verið lögfestar.
Flokkurinn mun setja sér það markmið að koma að hagsmunamálum neytenda og fylgja eftir réttarbótum á sviði neytendaverndar þegar þess er þörf.
Flokkurinn mun leggja fram frumvörp til lagabreytinga til að styrkja stöðu neytenda og líta til nágrannalanda okkar til samræmingar og upplýsinga. Það er skoðun flokksins að sterk neytendavernd sé til hagsbóta bæði fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu.
Ganga verði hratt og skipulega í að bæta úr skorti á lagagrunni sem augljóslega er valda neytendum fjárhagstjóni og kemur í veg fyrir að neytendur geti leitað réttar sín þegar brotið er á þeim.

Vinstri hreyfingin – Grænt framboð
VG hefur lagt mikla áherslu á samband umhverfisverndar og neytendaverndar. Í því samhengi hafa þingmenn hreyfingarinnar m.a. lagt fram þingsályktunartillögur um skipun starfshóps um merkingu kolefnisspors matvæla og skyldu ferðaþjónustuaðila til að bjóða upp á kolefnisjöfnun við sölu á þjónustu.
VG telur að það sé lykilatriði að neytendur séu vel upplýstir um umhverfisáhrif þeirra vara sem þeir kaupa til að geta tekið meðvitaðar ákvarðanir með tillit til umhverfisins og að söluaðilar veiti neytendum í auknum mæli tækifæri til að kolefnisjafna vöru eða þjónustu.

Fréttir í sama dúr

Bílastæðamál fyrir Hæstarétt

Baráttan um bílastæðin

Neytendablaðið er komið út

Aðalfundur 22. október

Staðan í Vaxtamálinu

Smálánabaráttan

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.