Fréttir

Tölvuleikjaiðnaðurinn undir smásjánni

Svokölluð lukkubox (e. loot boxes) í tölvuleikjum eru viðfangsefni nýrrar skýrslu norsku neytendasamtakanna; Forbrukerrådet. Skýrslan varpar ljósi á það hvernig sumir tölvuleikir eru hannaðir með það markmið að spilarar eyði sem mestum pening og sem mestum tíma fyrir framan tölvuna.

Neytendasamtök í Evrópu kalla eftir strangara regluverki svo sem að tölvuleikjaframleiðendum verði meðal annars bannað að nota villandi hönnun sem getur jafnvel ýtt undir spilafíkn.Tölvuleikir er stærsta afþreyingariðnaður í heimi en talið er að 2,8 milljarðar barna, unglinga og fullorðinna spili tölvuleiki reglulega. Sala á tölvuleikjum hefur þróast frá leikjadiskum yfir í sölu á netinu á stafrænu formi og hefur þessi þróun opnað á nýjar tekjuleiðir, meðal annars svokallað „In-game content“ eða aukahluti sem spilarar geta keypt. Talið er að tölvuleikjaframleiðendur hafi á árinu 2021 selt aukahluti í tölvuleikjum, þar á meðal lukkubox, fyrir 15 milljarða Bandaríkjadala og að salan fari ört vaxandi á næstu árum. Þarna er því eftir miklu að slægjast.

Sjá skýrsluna hér

Hér að neðan má sjá stutt myndband um lukkubox.

Hvað eru lukkubox?

Lukkubox eru nokkurs konar happdrættispakkar með tilviljanakenndu innihaldi, eða verðlaunum, sem tölvuleikjaspilarar geta keypt og í sumum tilfellum veitt þeim forskot í leikjum. Þetta geta sem dæmi verið vopn, sýndarfé eða útlits-uppfærsla. Hvað lukkuboxið inniheldur nákvæmlega kemur þó fyrst í ljós þegar búið er að greiða fyrir hana. Stundum geta spilarar unnið lukkubox, t.d. með því að ná einhverju takmarki í leiknum en algengara er að spilurum sé ýtt út í kaup á lukkuboxum og er þá ýmsum brögðum beitt.

Lukkubox hafa lengi verið umdeild. Markaðssetningin er ágeng og hvert tækifæri nýtt til að fá spilarann til að eyða meiru. Lukkuboxin þarf að kaupa með sýndarfé en sýndarféð þarf að kaupa með raunverulegu fé. Þetta fyrirkomulag villir um fyrir spilurum sem eiga erfitt með að sjá hver raunverulegur kostnaður er. Þá miðar hönnunin að því að spila á veikleika notenda auk þess sem hún ýtir undir spilafíkn. Þrátt fyrir þetta eru lukkubox algeng í mörgum tölvuleikjum.

Iðnaður án eftirlits

Skýrslan er afar umfangsmikil og er niðurstaðan í stuttu máli sú að þótt tölvuleikjaframleiðsla sé orðinn stærri afþreyingaiðnaður en kvikmyndir og tónlist þá hafi yfirvöldum yfirsést að setja honum reglur. Í framhaldi af útgáfu skýrslunnar kalla 20 neytendasamtök víðsvegar að úr Evrópu eftir því að regluverk um tölvuleiki verið hert svo tryggja megi neytendarétt.

Neytendasamtök leggja fram eftirfarandi tillögur til stjórnvalda, eftirlitsstofnana og löggjafans:

  • Tölvuleikjaframleiðendum verði bannað að nota blekkjandi hönnun sem villir um fyrir neytendum.
  • Öll sala á aukahlutum ætti að vera í raunverulegri mynt. Í öllu falli ætti alltaf að gefa upp raunverulegt andvirði samhliði andvirði sýndarfés.
  • Leikir sem höfða til barna ætti ekki að bjóða upp á lukkubox eða annað efni sem borga þarf sérstaklega fyrir.
  • Meira gagnsæi er nauðsynlegt og ættu eftirlitsstjórnvöld og rannsakendur að hafa aðgang að þeim gögnum og algrímum sem notuð eru. Þá ættu neytendur að vera upplýstir um það ef ákvarðanir í leiknum byggja á algríma og hafa þann möguleika að spila leiki án þeirra.
  • Eftirlit með tölvuleikjaiðnaðinum verður að vera öflugra. Eftirlitsstofnanir verða að hafa nægilega þekkingu og úrræði til að geta gripið til aðgerða til verndar neytendum.
  • Ef þau úrræði sem upp eru talin hér að ofan duga ekki til verður hreinlega að íhuga bann við lukkuboxum.

FIFA 22

Til að meta umfang vandans skoðaði Forbrukerrådet sérstaklega tvo vinsæla tölvuleiki; annars vegar FIFA 22 og hins vegar Raid: Shadow Legends. Báðir þessir leikir eru uppfullir af brellum sem hafa þann eina tilgang að fá spilara til að eyða eins miklu tíma við skjáinn og eins miklum peningum og hægt er. Hér að neðan má sjá umfjöllun um FIFA 22 og er sérstaklega skoðað hvernig lukkubox er notuð í leiknum og hvaða áhrif þau hafa.

Fótboltaleikurinn FIFA er langvinsælasti íþróttatölvuleikurinn á markaði í dag. Hann er gefinn út af tölvuleikjaframleiðandanum Electronic Arts (EA) og frá árinu 1993 hafa nýjar útgáfur af leiknum komið út árlega. Nýjasta útgáfan, FIFA 22, kom út í október í fyrra.

FIFA gerir þá kröfu að spilarar séu eldri en 13 ára. Börn yngri en 13 þurfa því annaðhvort að ljúga til um aldur eða nota aðganga annarra, svo sem foreldra eða systkina.

Ólíkt mörgum tölvuleikjum er FIFA seldur á fullu verði þrátt fyrir að vera einnig með „in-game content“. Í því felst að spilarar geta keypt allskyns aukahluti eins og lukkubox.

Úrvalsliðið stærsta tekjulindin

Árið 2008 kynnti EA til leiks nýja leiktegund; FIFA Úrvalslið (e. FIFA Ultimate Team – FUT) sem nú er orðinn vinsælasti hluti leiksins og ein stærsta tekjulind EA.

Úrvalsliðið virkar í stuttu máli þannig að spilarar keppast um að búa til sitt fótboltalið með því að opna eða kaupa FIFA pakka sem innihalda handahófskennda leikjauppfærslur. Slíkir pakkar eru í raun og veru lukkubox og innihalda leikmannaspjöld, útlitsuppfærslur svo sem liðspakka, merki, eða aðra aukahluti. Eftir að spilarar hafa fengið, eða keypt, leikmannaspjöld geta þeir sett saman lið og keppt við aðra spilara á netinu.

Gögn frá framleiðanda sýna að EA hannar FIFA leikina á þann hátt að spilarar eru hvattir til að spila Úrvalslið við hvert tækifæri og kaupa pakka, en þannig fær fyrirtækið áframhaldandi tekjur af leiknum eftir kaup

Pakkar og sýndarfé

Spilarar geta keypt FIFA leikmannapakka með „FIFA punktum og þá þarf að kaupa með raunverulegum peningum. FIFA punktarnir eru aðal gjaldmiðillinn í leiknum. Spilarar geta einnig safnað FIFA krónum (e.coins) með því að spila leikinn. Í hverjum leikmannapakka eru yfirleitt 12 handahófskennd spjöld. Fljótlegasta leiðin til að eignast FIFA pakka er að kaupa FIFA punkta og kaupa svo pakkana með punktunum. Verðið á FIFA punktum er breytilegt eftir gjaldmiðlum, en 100 punktar kosta í kringum 1 evru.

Innihald FIFA pakkanna breytist stöðugt. Verðmætustu pakkarnir eru svokallaðir „Promo Packs“ sem eru dýrari og auglýstir þannig að meiri líkur séu að vinna eftirsótt verðlaun. Slíkir pakkar eru yfirleitt aðeins í boði í einn sólarhring. Þessi aðferð spilar inn á það sem kallað er FOMO (fear of missing out) eða hræðsla við að missa af, því hún ýtir á spilara að klára kaup áður en það er of seint. Á vissum tímum býður leikurinn upp á svokallað „lightning round“, þar sem takmarkað magn af dýrum FIFA pökkum eru í boði í skamman tíma. Þá er gjarnan upplýst hversu margir pakkar eru eftir hverju sinni og upplýsingarnar uppfærðar í rauntíma.

Í fyrri útgáfunni, FIFA 21, var í boði að sjá hvað pakkarnir innihéldu áður en kaup voru gerð. Í nýjastu útgáfunni er slíkur möguleiki almennt aðeins í boði fyrir ódýrustu og minnst eftirsóttu pakkana.

Þar sem FIFA leikurinn kemur út árlega, leiðir ný útgáfa til þess að spilarar sem kaupa nýjasta leikinn þurfa að byrja frá byrjun. Fyrir utan ónotaða FIFA punkta, þá færist ekkert aukaefni á milli útgáfa.

Lítið að marka uppgefnar vinningslíkur

Tölvuleikjaframleiðandinn EA hefur ekki farið varhluta af gagnrýni í gegnum árin. Árið 2019 breytti EA hönnuninni þannig að spilarar gætu séð hversu miklar líkur væru á að fá leikmenn úr tilteknum styrkleikaflokkum úr pökkunum. Var þetta að sögn gert til að auka gegnsæi en þessi möguleiki er þó miklum takmörkunum háður.

Í FIFA Úrvalsliðinu fá leikmannaspjöldin „einkunn“ sem gefur gróflega til kynna hversu góðir leikmennirnir eru. Verðmætustu leikmennirnir fá einkunnina 90 eða hærra. Munur á „gæðum“ leikmanns með 87 í einkunn og svo 94 í einkunn getur verið gífurlegur. Eins og sést á skjáskotinu hér að ofan þá er tekið fram að það séu 8,8% líkur á að fá spjald með leikmanni sem er með 87 eða hærri einkunn. Það segir þó ekkert til um það hverjar líkurnar eru að fá leikmann sem er með 90 eða hærra í einkunn. Sem dæmi var spjald með leikmanninum  Ronaldo Luís Nazário de Lima, sem var með 94 í einkunn, verðmetið á 12 milljón FIFA krónur. Til samanburðar var ódýrasta leikmannaspjaldið, með 87 í einkunn, verðmetið á 12 þúsund FIFA krónur.

Þegar tölfræðin sem FIFA setur fram er skoðuð, sbr myndin hér að ofan, sést skilmáli í smáu letri sem segir „contents of packs are dynamically generated“. Þetta er óljóst orðalag, en gefur í skyn að tölfræðin gæti breyst í rauntíma. Í ljósi þess hvað framleiðandinn býr yfir miklum upplýsingum um notendur gæti hann breytt forsendum í rauntíma allt með það að markmiði að hámarka eyðslu hjá spilurum. Þannig gæti t.d. spilari sem eyðir ekki miklu í leiknum fengið verðmætt spjald svo að honum sé ýtt í þá átt að eyða meiri pening. Eða þá að spilari sem þykir líklegur til að hætta að spila leikinn fær verðmætt spjald til að draga hann aftur inn í  leikinn. Það er þó rétt að taka fram að það er ógerningur fyrir aðila utan EA að vita hvort eða hvernig hróflað er við pökkunum á bak við tjöldin, þar sem það er ekkert gagnsæi í algóritmanum á bak við þá.

Litlar líkur á að næla í Mbappe

Til að sýna fram á hversu litlar líkur eru á því að vinna bestu leikmennina útbjó Forbrukerrådet tilbúið dæmi út frá upplýsingum frá EA ásamt eigin tilgátum, til að hægt væri að reikna dæmið.

Spilari sem reyndi að næla sér í Team of the Year spjald (TOTY-spjald) af forsíðustjörnu leiksins, Kylian Mbappe, hafði minna en tvær vikur til stefnu því að þeim tíma liðnum var spjaldið ekki lengur til sölu.  Það er hægt að fá 11 mismunandi leikmenn í TOTY, en spjaldið sem um ræðir var ítrekað auglýst í valmynd og þegar leikurinn var að hlaðast. Pakkinn sem veitti mestu líkurnar á Mbappe spjaldi var svokallaður „Jumbo Rare Player Pack (JRPP)“ sem gaf 1.3% líkur og kostaði 2.000 FIFA punkta – ígildi 20 evra.  Spilari sem freistar þess að fá TOTY spjald þarf að opna 77 JRPP pakka, sem myndi kosta 150.000 FIFA punkta, eða um 1.400 evrur.

Þar sem það eru 11 leikmenn í TOTY, og með því að dreifa líkunum jafnt á milli þessara 11 leikmanna,  eru líkurnar á að fá TOTY Mbappe úr slíkum pakka 0.11%.

Þetta þýðir að spilari þarf að meðaltali að kaupa samtals 847 JRPP pakka til að fá eitt tiltekið TOTY spjald. Til að kaupa slíkt magn þyrfti spilarinn að eyða 1.7 milljón FIFA punktum, eða um 13.500 evrum (rétt undir 2 milljónum íslenskra króna). Rétt er að taka fram að þetta dæmi sem Forbrukerrådet tekur er byggt á jöfnum líkum og hlutlausri dreifingu. Til þess að það væri betur tryggt að leikmaður myndi fá Mbappe spjaldið gæti hann þurft að kaupa nokkur þúsund JRPP pakka.

Þetta tilbúna dæmi verður þó enn flóknara. Annars vegar eru takmörk sett á það hversu marga JRPP pakka er hægt að kaupa, eða 12 pakka á sólarhring. Spilari þyrfti því að grípa til þess ráðs að kaupa aðra pakka með minni líkum, svo sem Prime Gold Player Pack, sem gefur minna en 1% líkur á að fá TOTY spjald. Hinsvegar eru engin gögn sem sýna að það sé jafn líklegt að fá Mbappe spjald og aðra leikmenn sem ekki eru jafn eftirsóttir.

Það mat Forbrukerrådet að 13.500 evrur fyrir þetta tiltekna spjald sé líklegast nokkuð hógvært og raunverulegar líkur séu mun minni. Þannig er í raun ógerningur fyrir spilara að átta sig á því hversu líklegt er að hreppa TOTY Mbappe spjaldið. Hjálpar þá lítið þótt spilari sé sérfræðingur í líkindareikningi.

Borga brúsann eða margra ára puð

Þrátt fyrir að EA hafi haldið því fram að öll spjöld í leiknum séu í boði án þess að greiða þurfi fyrir með FIFA punktum, segja tölurnar aðra sögu. Þannig þénar spilari um 500-800 FIFA krónur fyrir hvern leik sem hann spilar, sem tekur um 12 til 15 mínútur. JRPP kosta 100.000 FIFA krónur. Spilari þyrfti því að spila um 150 leiki til að hafa efni á einum JRPP pakka. Það tæki yfir 2.000 mínútur eða 35 klukkustundir. Þessi tími getur þó verið breytilegur þar sem spilarar geta reynt að taka þátt í viðburðum sem fela í sér fleiri FIFA krónur og verðlaun. En fyrir meðalspilarann er nær ógerningur að þéna nóg til að fá bestu spjöldin með því einu að spila leikinn. Miðað við meðaltalslíkur á að fá TOTY spjald, með því einu að spila leikinn, þyrfti að spila fleiri en 12.000 leiki. Það tæki um 2.500 klukkustundir eða einn þriðja úr ári í stanslausri spilun. Næsti FIFA leikur væri kominn út áður en spilarinn næði að tryggja sér eitt TOTY spjald – en leikmaðurinn hefur aðeins um viku til að kaupa slíkt spjald. Ef sami spilari myndi vilja freista þess að fá TOTY Mbappe spjaldið með því einu að spila leikinn þá þyrfti hann, út frá dæminu hér að ofan, að spila stanslaust í meira en þrjú ár til að fá það punktamagn sem þarf að meðaltali til að öðlast spjaldið.

Þrátt fyrir að um sé að ræða grófan útreikning þá er sannleikurinn sá að eina raunverulega vonin fyrir leikmann að hreppa TOTY Mbappe spjaldið er að taka þátt í lottói þar sem líkurnar á vinningi eru afar litlar.

Fréttir í sama dúr

Samkeppni slátrað – um hvað snýst málið?

Hópmálsókn í Evrópu vegna öndunarvéla frá Philips

Vaxtamálið – fyrning krafna

Neytendur upplýstir um vöruskerðingu- ný lög í Frakklandi

Ósanngjarnar kröfur Isavia vegna Base Parking

Arðsemisþak á raforku til heimila

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.