Fréttir

Varast ber inneignarnótur

Ath. fréttinni var breytt 23.mars og bætt við upplýsingum fréttatilkynningu frá Atvinnuvegaráðuneytinu um leiðbeiningar vegna inneignarnóta.

Í áraraðir hafa Neytendasamtökin vakið athygli á afar takmörkuðum rétti neytenda þegar kemur að gjafabréfum og inneignarnótum. Margoft hafa neytendur tapað fé sínu vegna þessa.

Félagsmenn Neytendasamtakanna geta haft samband við samtökin og fengið frekari upplýsingar og aðstoð, sé þess óskað. Álag á símkerfið er mikið um þessar mundir og eru félagsmenn hvattir til að senda tölvpóst (ns@ns.is) með nafni, símanúmeri og hvað málið varðar. Sértu félagsmaður, verður haft samband við þig eins fljótt og auðið er. Hægt er að skrá sig hér.

Nú um stundir ber við að sumar ferðaskrifstofur bjóði ferðalöngum inneignarnótum í stað lögbundin ár endurgreiðslu ferðakostnaðar. Neytendasamtökin geta ekki ráðlagt fólki að taka slíku boði, í ljósi þess að fari allt á versta veg, eru inneignarnótur og gjafabréf verðlausar kröfur. Við höfum því miður fjölmörg dæmi um það á undanförnum árum. Þá geta neytendur misst margvíslegan rétt með því að þiggja inneignarnótu í stað reiðufjár. Þar má nefna mögulega endurgreiðslu greiðslukortafyrirtækis (e. chargeback) vegna vanefndrar þjónustu.

Til samtakanna hafa að undanförnu leitað félagsmenn og aðrir vegna mörghundruð pakkaferða sem ljóst er að ekki verður hægt að fara í. Réttur þeirra er yfirleitt afar skýr, en þó virðist sem einhverjar ferðaskrifstofur skirrist við að veita fullgildar upplýsingar þar um og að uppfylla skyldur sínar.

Í ljósi eindæma aðstæðna hafa samtökin óskað eftir samstarfi við stjórnvöld og ferðageirann um aðgerðir til að efla rétt neytenda en koma á sama tíma til móts við lausafjárþurfi ferðaskrifstofur.

Evrópsk systursamtök Neytendasamtakanna og framkvæmdastjórn ESB eru að skoða útfærslur sem miða að því að neytendur geti frestað ferðalögum og valið að fá inneignarnótur með ríkisábyrgð. Í samræmi við þær hafa Neytendasamtökin boðist til að mæla með því við neytendur að þiggja inneign hjá ferðaskrifstofum þegar það á við, geti ferðamálayfirvöld tryggt að neytandi beri ekki skarðan hlut frá borði, kæmi til greiðsluþrots ferðaskrifstofunnar áður en inneignin er nýtt. Lögvarinn réttur til endurgreiðslu verði þó ekki tekinn af fólki, en með þessu yrði komið til móts við alla aðila; ekki yrði vegið að gjaldfærni ferðaskrifstofa, en neytendur halda rétti sínum. Neytendasamtökin bíða svars frá stjórnvöldum.

Eftirfarandi var bætt við eftir að stjórnvöld brugðust við áskorun Neytendasamtakanna: Atvinnuvegaráðuneytið hefur gefið út fréttatilkynningu og Neytendastofa samsvarandi leiðbeiningar vegna inneignarnóta sem ferðamenn fallast á að þiggja í stað endurgreiðslu vegna ferða sem hefur verið aflýst eða afpantaðar vegna COVID-19.

Fréttir í sama dúr

Droppshipping – ekki er allt sem sýnist

Afstaða stjórnmálaflokkanna til neytendamála

Breytingar á búvörulögum gegn stjórnarskrá

Aðalfundur Neytendasamtakanna 2024

Ályktanir aðalfundar

Bílastæðamál fyrir Hæstarétt

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.