Fréttir

Vaxtamálið – staða, næstu skref og ráðstafanir til að slíta fyrningu

Eftirfarandi var sent þátttakendum í Vaxtamálinu í tölvupósti:

Erindi þetta er ritað til allra þeirra sem skráðu sig til þátttöku í Vaxtamáli Neytendasamtakanna og veittu Lögfræðistofu Reykjavíkur umboð til þess að afla gagna hjá viðskiptabönkunum um lán með breytilegum vöxtum. Markmið gagnaöflunarinnar er að meta réttarstöðu þátttakenda vegna skilmála í lánum þeirra um breytilega vexti. Þá voru sex mál þátttakenda valin til þess að vera prófmál í dómsmálum gegn stóru viðskiptabönkunum bönkunum þremur.

Í erindi þessu er m.a. fjallað um:

  • Fyrstu niðurstöður í héraði liggja fyrir í fordæmisgefandi prófmálum og hefur skilmáli Landsbankans verið dæmdur ólögmætur.
  • EFTA-dómstólinn hefur til umfjöllunar fasteignalán sem tekin voru árið 2017 eða síðar, eftir að lög um fasteignalán til neytenda tóku gildi.
  • Gagnaöflun og úrvinnsla hefur verið torveld af ýmsum ástæðum. Bankarnir hafa ekki afhent öll umbeðin gögn.
  • Málum 1.631 þátttakenda hefur verið skotið til Úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki, með það að markmiði að rjúfa fyrningu. Óvissa er um afdrif málskotsins þar sem bankarnir hafa krafist frávísunar. Hér að neðan er fjallað um aðrar leiðir til að slíta fyrningu.

Prófmálin

Sex dómsmál hafa verið höfðuð í tengslum við Vaxtamálið, sem valin voru sem prófmál til þess að fá fordæmisgefandi úrlausnir um algengustu tegundir skilmála viðskiptabankanna um breytilega vexti. Orðalag og framsetning skilmála bankanna er hins vegar mismunandi, og mismunandi lagaákvæði gilda að hluta til, en því var nauðsynlegt að höfða nokkur mál. Málin grundvallast þó öll á því að umræddir skilmálar bankanna uppfylli ekki kröfur laga um gagnsæi og skýrleika, sem hafi þær afleiðingar að bankarnir hafi mjög vítt sjálfdæmi um það hvernig vaxtabreytingar eru ákvarðaðar. 

Þegar hafa fallið tveir dómar í héraði. Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi skilmála í neytendaláni Landsbankans, sem veitti bankanum einhliða heimild til þess að breyta vaxtastigi lánsins, ólögmætan og ógildan. Niðurstaðan er rökstudd með vísan til þess að skilmálinn hafi skort þann skýrleika sem lög gera kröfu um. Er í dómnum sérstaklega vísað til orðalags í skilmála Landsbankans þar sem talin eru upp atriði sem geta verið ástæður breytinga á vaxtastiginu og tiltekið að vöxtum megi breyta ef „aðrar ástæður gefi tilefni til.“ Dómurinn telur að ákvæðið veiti bankanum aðstöðu til þess að breyta vöxtum lánsins „algerlega að eigin geðþótta í krafti þessarar óafmörkuðu heimildar“. Arion banki var sýknaður í hliðstæðu máli, en ekkert sambærilegt orðalag er að finna í skilmála hans, sem er öðruvísi uppsettur, en leiðir þó til sams konar heimildar til sjálfdæmis að mati okkar.

Dómarnir sem fellu nú snúa að lánum sem tekin voru áður en fasteignalán til neytenda tóku gildi árið 2017. Skilmáli Landsbankans, sem málið fjallaði um, hefur sennilega ekki verið mikið nýttur um nokkurra ára skeið í stöðluðum skilmálum Landsbankans, og því hefur niðurstaðan sem slík aðeins bein áhrif á mikinn minnihluta útlána bankans. Hins vegar hefur dómurinn og forsendur hans verulega þýðingu, að því gefnu að lokaniðurstaða málsins verði á sömu lund. Í fyrsta lagi er staðfest að óskýrleiki og opin ákvæði um forsendur vaxtabreytinga geta leitt til þess að lántakar geti eignast fjárkröfu á hendur lánveitanda vegna oftekinna fjármuna. Í annan stað hafa nýlegri skilmálar að geyma sambærilegt orðalag og Landsbankaskilmálinn í málinu, sem galopnar heimild banka til breyta vöxtum á forsendum sem ekki eru tilgreindar í lánssamningi. 

Í málum þeim sem snúa að skilmálum sem falla undir fasteignalán til neytenda, sem gengu í gildi árið 2017, hefur verið leitað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins, samkvæmt úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur, Héraðsdóms Reykjaness og Landsréttar. Álitaefni málanna snúast m.a. um það hvort skilmálar lánanna uppfylla það skilyrði laganna að nota skuli viðmiðunarvexti sem eru „skýrir, aðgengilegir, hlutlægir og sannreynanlegir“, en framangreint ákvæði er innleiðing EES tilskipunar. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og Eftirlitsstofnun EFTA hafa báðar skilað umsögnum til dómstólsins vegna skilmála Landsbankans, og er einróma niðurstaða þeirra að skilmálar Landsbankans uppfylli ekki framangreinda kröfu. Munnlegur málflutning í máli Landsbankans fer fram í lok mars, en væntanlega síðar á árinu í máli Íslandsbanka.

Gagnaöflun og úrvinnsla 

Í samræmi við umboð það sem þátttakendur hafa undirritað, var óskað eftir gögnum um lán þátttakenda frá viðskiptabönkunum til að hægt væri að meta lögmæti þeirra. Frá upphafi Vaxtamálsins til dagsins í dag hafa viðskiptabönkunum þremur verið sendar gagnabeiðnir fyrir hönd rúmlega 1.800 lántaka. Óskað var eftir því að bankarnir afhentu Lögfræðistofu Reykjavíkur afrit af lánaskilmálum þátttakenda, sem bera breytileg lán og greiðsluyfirlit fyrir lánin. Þessi gögn eru nauðsynleg til þess að hægt sé meta lögmæti skilmálanna og umfang hugsanlegrar endurkröfu. Í heildina tekið hefur dráttur á afhendingu umbeðinna gagna verið óheyrilegur og úrvinnsla gagna hefur verið afar tímafrek. Þá hefur hluti umbeðinna gagna ekki verið afhentur. Í því samhengi hefur verið sérstaklega bagalegt að aðeins einn af bönkunum hefur afhent greiðslusögu á stafrænu formi (og aðeins að hluta). Afhending gagna á stafrænu formi auðveldar til muna útreikning á meintum ofgreiðslum. Landsbankinn hefur t.a.m. valið að afhenda afrit af greiðslukvittunum, sem leiðir til þess að vinna þyrfti upplýsingar úr yfir hundrað þúsund greiðslukvittunum og skrá milljónir færslna í töflureikni til þess að geta framkvæmt endurútreikning á lánum. Þetta háttalag minnir óneitanlega á þekkta aðferð í Bandaríkjunum sem stórfyrirtæki hafa beitt sem standa andspænis hópmálsóknum og er kölluð „document dump“.

Fyrning. Málskot til Úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki.

Eins og fram kemur í kynningarefni um Vaxtamálið þá fyrnast kröfur um endurgreiðslu ofgreiddra fjármuna almennt á 4 árum. Af þeim sökum er hætta á því að hugsanlegar kröfur um endurgreiðslu falli niður, á meðan beðið er niðurstöðu í fordæmisgefandi dómsmálum, ef ekki gripið til ráðstafana til þess að slíta fyrningunni. Í dómsúrlausn Héraðsdóms Reykjavíkur, þar sem skilmáli Landsbankans var lýstur ógildur, er enn fremur miðað við að fyrningafresturinn hafi áhrif á endurútreikning lánsins, sem leiðir til þess að réttur til endurgreiðslu takmarkast verulega. Framangreint væri þó bundið við kröfur sem hafa verið greiddar upp, eða þegar eftirstöðvar láns eru lægri að fjárhæð en krafa um endurgreiðslu. 

Við höfum nú – í samráði við Neytendasamtökin – skotið 1.631 máli til Úrskurðarnefndar um viðskipti fjármálafyrirtækja en markmiðið er að koma í veg fyrir að mögulegar endurkröfur fyrnist. Slíkt málskot slítur fyrningu skv. 2. mgr. 16. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007. Benda verður þó á að óvissa er um afdrif framangreinds málskots, meðal annars vegna þess að viðskiptabankarnir hafa allir gert kröfu um að málskotunum verði vísað frá nefndinni. Krafa um frávísun er m.a. byggð á því að samþykktir Úrskurðarnefndarinnar geri ekki ráð fyrir þeim möguleika að mörgum málum sé skotið til nefndarinnar í einu lagi. Þegar afstaða Úrskurðarnefndarinnar liggur fyrir munum við í samráði við Neytendasamtökin senda upplýsingar þar að lútandi til þátttakenda. 

Við ítrekum jafnframt, eins og fram kemur í verkbeiðni þátttakenda, að Lögfræðistofa Reykjavíkur getur samkvæmt samkomulagi gripið til frekari ráðstafana en að ofan greinir óski þátttakendur þess. Senda má fyrirspurn á vextir@lr.is til þess að fá nánari upplýsingar.

Með kveðju,
f.h. Lögfræðistofu Reykjavíkur, 
Ingvi Hrafn Óskarsson, lögmaður

Fréttir í sama dúr

Bílastæðamál fyrir Hæstarétt

Baráttan um bílastæðin

Neytendablaðið er komið út

Aðalfundur 22. október

Staðan í Vaxtamálinu

Smálánabaráttan

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.