Fréttir

Villandi nafnanotkun, svimandi hár reikningur og brot á dýravernd

Neytendasamtökunum barst í síðastliðinni viku ábending um svimandi háan reikning og misvísandi nafnanotkun hjá meindýraeyði. Félagsmaður leitaði eftir aðstoð meindýraeyðis á vefsíðunni já.is með því að slá inn „meindýraeyðir Reykjavíkur“ með það að markmiði að fá aðstoð hinnar opinberu (og oft ókeypis) þjónustu Meindýravarna Reykjavíkurborgar. Ljóst er að þegar leitað er með þessum leitarskilyrðum fást upp margar þjónustur, sem ekki eru á vegum Reykjavíkurborgar. Þá var félagsmaðurinn rukkaður um rúmar 92 þúsund krónur fyrir um 10 mínútna vinnu. Eftir að Neytendasamtökin skárust í leikinn var reikningurinn felldur niður. Fyrirtækið er ekki með vefsíðu og engin leið fyrir neytanda að gera sér grein fyrir verði þjónustunnar. Þá vakti það athygli Neytendasamtakanna að reikningurinn barst frá fyrirtæki, hvers nafn er í engu líkt Meindýravörnum Reykjavíkur. 

Að þessu tilefni minna Neytendasamtökin félagsmenn sína, sem og aðra neytendur, á að fá alltaf verðtilboð eða hugmynd um verð, áður en þjónusta er keypt. Því miður fá samtökin allt of oft tilvik á borð sitt borð þar sem óprúttnir aðilar krefjast svimandi hárrar upphæðar af grandalausum neytendum. Verðlagning er vissulega frjáls, en það er þó ekki þar með sagt að hægt sé að skella fram reikningi með hvaða upphæð sem er.

Þá var athygli samtakanna vakin á því að samkvæmt reikningi fyrirtækisins hafi fyrirtækið notað svokölluðum límgildrum, en notkun þeirra stenst hvorki lög um velferð dýra eða né lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum þar sem límgildrur geta valdið óþarfa limlestingum eða kvöl, og dauðastríð þeirra dýra sem lenda í slíkum gildrum er átakanlegt.

Neytendasamtökin hafa sent erindi til Neytendastofu vegna villandi viðskiptahátta meindýraeyðisins og til MAST vegna notkunar á límgildrum. Neytendasamtökin munu fylgjast með framvindu málanna.

Fréttir í sama dúr

Samkeppni slátrað – um hvað snýst málið?

Hópmálsókn í Evrópu vegna öndunarvéla frá Philips

Vaxtamálið – fyrning krafna

Neytendur upplýstir um vöruskerðingu- ný lög í Frakklandi

Ósanngjarnar kröfur Isavia vegna Base Parking

Arðsemisþak á raforku til heimila

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.