Fréttir

Vodafone verður við áskorun

Neytendasamtökunum hafa borist fjöldi ábendinga og kvartana frá neytendum síðustu vikurnar vegna breytinga Fjarskipta hf. (Vodafone) á útgáfu reikninga.

Samkvæmt þeim kvörtunum sem samtökunum bárust þá virtist fyrirtækið hafa breytt gjalddaga og eindaga reikninga sinna þannig að neytendur sem fóru inn á heimabanka sinn um mánaðarmót sáu ekki reikning frá fyrirtækinu. Þar sem flestir neytendur greiða reikninga sína í gegnum heimabanka, við útborgun um mánaðarmót, urðu þessar breytingar á  gjalddaga og eindaga reikninga Vodafone til þess að margir neytendur hreinlega gleymdu að greiða reikninga frá fyrirtækinu þar sem þeir birtust ekki í heimabankanum á sama tíma og aðrir reikningar.

Neytendasamtökin sendu erindi á Vodafone og óskuðu eftir skýringum á umræddum breytingum og bentu á að ef reikningar væru ekki sýnilegir við mánaðarmót, þegar hinn almenni neytandi greiðir að jafnaði sína reikninga, eykur það hættuna á því að greiðsla gleymist með tilheyrandi innheimtukostnaði og óþægindum, ásamt því að ala á óvild neytandans í garð fyrirtækisins.

Vodafone tilgreindi að umrædd breyting hafi verið gerð í því skyni að einfalda viðskiptavinum greiðslu reikninga sinna með því að sameina gjalddaga og eindaga þannig að gjalddagi, sem jafnframt er eindagi, yrði 15 dögum frá útgáfu reiknings. Þessi breyting á skilmálum hafi verið kynnt fyrir áskrifendum á símareikningi sem og á heimasíðu fyrirtækisins.

Það er ánægjulegt frá því að segja að Vodafone brást ákaflega vel og skjótt við erindi Neytendasamtakanna og hefur fyrirtækið ákveðið að breyta fyrirkomulaginu aftur til fyrra horfs, þannig að eindagi reikninga verði 2. hvers mánaðar og gjalddagi sjö dögum fyrr. Í svari fyrirtækisins til Neytendasamtakanna kemur fram að „með þessum hætti verður tryggt að reikningar verða aðgengilegir og sýnilegir í netbönkum viðskiptavina fyrirtækisins um mánaðarmót og áður en kemur að eindaga, sbr. tilmæli Neytendasamtakanna þar um.“

Neytendasamtökin fagna því hve vel Vodafone brást við ábendingum samtakanna.

Fréttir í sama dúr

Frumvarpi um samkeppnisundanþágu afurðastöðva mótmælt

Allt uppi á borðum

Áttu rétt á bótum? – sæktu þær án kostnaðar

Grænþvegnir grísir

Tjón vegna samráðs metið á 62 milljarða króna

Einbeittur síbrotavilji CC bílaleigu ehf.

Bílaleiga lykill bílhurð

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.