Skilaréttur kaupenda
Neytendasamtökin hafa tekið saman sanngjörn lágmarksviðmið um skilarétt, gjafabréf og inneignir sem verslanir geta stuðst við, þar sem engin lög gilda um það. Þetta eru lágmarksviðmið og takmarka ekki betri rétt samkvæmt skilmálum eða lögum. Mörg fyrirtæki veita betri rétt en hér kemur fram. Viðmið þessi taka til neytendakaupa, það er þegar einstaklingur kaupir vöru utan atvinnustarfsemi af fyrirtæki sem hefur atvinnu sína af sölunni. Aðrar reglur kunna að gilda við kaup fyrirtækja.
Lágmarksskilaréttur Neytendasamtakanna
-Þú mátt skila ógallaðri vöru í 14 daga frá kaupum hið minnsta (um netkaup gilda rýmri reglur, sjá hér). Seljandi getur krafið þig um sönnun á kaupunum, til dæmis kassakvittun eða gjafamerki. Þá þarf varan að vera í upprunalegu ástandi. Við skil á vöru skal endurgreiða kaupverð hennar.
-Skilarétturinn gildir líka um vöru sem keypt er á útsölu eða á tilboðsverði nema annað sé skýrt tekið fram við kaupin.
-Þú mátt skila gjöf sé hún merkt með gjafamerki. Jólagjöfum mátt þú skila að minnsta kosti fram til 15. janúar, óháð því hvenær hún var keypt.
Áður en gjöf er keypt er því mikilvægt að kaupandinn kynni sér skilaréttarreglur viðkomandi verslunar og biðji um gjafamiða á vöruna. Til að skila gjöf getur þurft að sýna fram á hvar gjöfin var keypt, en sé gjafamiði ekki til staðar er hægt að kanna hvort gefandinn eigi kvittun fyrir kaupunum. Hafi vara verið sérpöntuð getur seljandi neitað að taka við vörunni, sé hún ógölluð.
Skilaréttur við kaup á netinu
Réttur neytenda er rýmri þegar verslað er á netinu. Í lögum kemur meðal annars fram að neytandi hafi fjórtán daga frest frá móttöku vöru til að falla frá samningi sem gerður er við kaup á netinu og fá endurgreitt (sjá VI. kafla). Skilarétturinn gildir líka um útsöluvörur.
Sendingarkostnaður, þegar vöru er skilað, fellur alla jafna á neytandann og ef um er að ræða innflutta vöru er líklegt að neytandinn hafi greitt virðisaukaskatt af vörunni. Virðisaukaskattur fæst endurgreiddir ef sýnt er fram á að varan sé send aftur til seljanda utan Íslands.
Neytandinn þarf að tilkynna ákvörðun sína um að hætta við kaup til seljandans með sannanlegum hætti og áður en fresturinn til að falla frá kaupum rennur út. Það er neytandans að sanna að hann hafi tilkynnt seljanda að hann vilji hætta við kaupin og því er best að gera það með skriflegum hætti, t.d. í tölvupósti.
Gjafabréf og inneignir
Gjafabréf eru vinsæl gjöf en því miður fá Neytendasamtökin á hverju ári mörg mál á sitt borð vegna gjafabréfa sem ekki nýtast. Því miður er ekkert í lögum eða reglum á Íslandi sem kveður á um lágmarks gildistími gjafabréfa.
Samkvæmt lögum er almennur fyrningarfrestur á kröfum fjögur ár en seljandi getur hins vegar sett hvaða gildistíma sem er á gjafabréfið svo framarlega sem hann kemur skýrt fram á bréfinu. Oftast er kvartað yfir því að seljandi leyfi viðskiptavininum ekki að nýta gjafabréf sem er útrunnið. Slíkir viðskiptahættir verða að teljast mjög sérstakir enda hefur seljandi ekki orðið fyrir neinum skaða, þvert á móti. Búið er að greiða fyrir ákveðna vöru eða þjónustu og í raun má því segja að neytandi veiti seljanda vaxtalaust lán.
Lágmarksréttur Neytendasamtakanna vegna gjafabréfa og inneigna
-Þú mátt nota gjafabréf/inneignarnótu til að kaupa allar vörutegundir í öllum útibúum seljanda, nema annað sé skýrt tekið fram á gjafabréfinu/inneignarnótunni.
-Þú mátt nota gjafabréf/inneignarnótu án takmarkana, einnig á útsölu.
-Gjafabréf/inneignarnótur gilda í fjögur ár hið minnsta. Mörg fyrirtæki hafa engin tímamörk.
-Ef gildistíminn er takmarkaður á það að koma skýrt fram á afgreiðslustaðnum og í gjafabréfinu/á inneignarnótunni.
-Gjafabréf/inneignarnótur skal prenta þannig að þau varðveitist út gildistímann. Einnig skal skrá gjafabréf/inneignarnótu í tölvukerfi seljanda, skyldi eigandi týna útprentuðu eintaki sínu.
Langflestar verslanir gera sér grein fyrir mikilvægi þess að veita góða þjónustu. Þó er því miður ekki óalgengt að fólk lendi í vandræðum þegar það ætlar að nota gjafabréfin sín eða inneignir sínar. Neytendasamtökin vilja gjarna fá að vita ef fólk fær ekki að nota gjafabréf eða inneignir, en benda jafnframt á það góða ráð að nýta gjafabréf og inneignarnótur svo fljótt sem auðið er, því inneignin getur tapast hætti seljandi starfsemi.
Deila:
Fleira áhugavert
Tryggingar geta ýmist verið lögbundnar eins og ábyrgðartrygging ökutækja og brunatrygging fasteigna eða frjálsar eins og á við um kaskótryggingar, líf- og sjúkdómartryggingar o.fl.