Lán
Smálán – himinhár lántökukostnaður
Smálán hafa verið veitt hér á landi um árabil en um síðustu áramót var þrengt mjög að starfsemi þeirra með breytingum á lögum um neytendalán.
Smálán hafa verið veitt af fyrirtækjum undir hatti E-content ehf. og síðar Ecommerce2020. dómstólar hafa komist að þeirri niðurstöðu að E-content hafi brotið lög með því að lána með margfalt hærri lántökukostnaði en lög heimila. Ecommerce tók við keflinu eftir að E-content ehf hrökklaðist af markaði og bæði Neytendastofa og áfrýjunarnefnd neytendamála hafa úrskurðað um ólögmæti lána sem voru veitt undir því yfirskyni að dönsk lög gilti um starfsemina.
Almenn innheimta hefur séð um alla innheimtu og vegna gloppu í lögum fellur fyrirtækið utan eftirlits Seðlabankans. Neytendasamtökin hafa ekki síður gagnrýnt starfsemi Almennrar innheimtu sem hefur að mati samtakanna endurtekið brotið innheimtulög. Einnig hefur úrskurðanefnd lögmanna komist að þeirri niðurstöðu í að minnsta kosti þremur málum að innheimtuhættir Almennrar innheimtu brjóta í bága við innheimtulög.
Ný snjóhengja - vextir hundruð milljarða lána snarhækka
Lántakendur með yfir 700 milljarða í óverðtryggðum fasteignalánum á föstum vöxtum sjá fram á stóraukna greiðslubyrði á næstu misserum þegar binditími lána rennur út. Sérfræðingur í fjármálum segir mikilvægt að fólk átti sig á stöðunni og leiti til sinna lánastofnana áður en það er um seinan.
Margir lántakar nýttu sér lágvaxtaumhverfið sem einkenndi árin fyrir og í gegnum heimsfaraldurinn til að taka óverðtryggð húsnæðislán á föstum vöxtum til þriggja eða fimm ára. Nú horfa þessir lántakar fram á stóraukna greiðslubyrði því stór hluti þessara lána er að falla á tíma, ef svo má segja.
Helmingur lána óverðtryggður
Lán að andvirði yfir 300 milljarða króna koma til endurskoðunar strax á þessu og næsta ári og taka þá mið af allt öðru og hærra vaxtaumhverfi. En þá er ekki öll sagan sögð því eins og kom fram í riti Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika fyrr á árinu er rúmlega helmingur allra óverðtryggðra lána á Íslandi á föstum vöxtum, eða um 707 milljarðar króna.
Greiningadeildir og sérfræðingar á lánamarkaði hafa talað um þessa gríðarlegu tilfærslu lána, af sögulega lágum vöxtum yfir á vexti dagsins í dag, sem hina nýju snjóhengju. Langstærsti hluti þessara lána kemur til endurskoðunar á næstu tveimur árum. Þar af koma lán að andvirði 74 milljarða til endurskoðunar strax á þessu ári en mestur verður kúfurinn á seinni hluta næsta árs og fyrri hluta ársins 2025. Á þetta hefur Seðlabankinn ítrekað bent og sagt ljóst að þau heimili sem festu lánsvexti til ýmist þriggja eða fimm ára á árunum 2020 og 2021, sjái fram á gríðarlegar hækkanir. Þá að því gefnu að vaxtastig í landinu haldist svipað og það er nú.
Fólk almennt upplýst
Björn Berg Gunnarsson, ráðgjafi í fjármálum, segist ekki trúa öðru en að fólk, sem tók óverðtryggð lán á föstum vöxtum, í allt öðru umhverfi en gildi nú, geri sér grein fyrir stöðunni. „Það er svo stutt síðan fólk tók þessi lán og vextir á húsnæðislánum búnir að vera svo mikið í umræðunni að ég trúi ekki öðru en að langflestir viti hvað er að fara að gerast þegar lánin verða endurskoðuð.“
Björn Berg Gunnarsson, fjármálaráðgjafi.
Björn segist finna fyrir því í sínu starfi að fólk sé almennt upplýstara um kjör og vexti húsnæðislána í dag en það var fyrir kannski tíu árum síðan. Hann telur að mun stærri hluti fasteignaeigenda, sem fram til þessa hafi kannski ekki verið sérstaklega virkir á neytendamarkaði, sé algjörlega með puttann á púlsinum í dag. „Þetta er svo stór hluti af heimilisbókhaldinu og sveiflurnar svo miklar á Íslandi að fólk hreinlega verður að setja sig inn í þetta. Enda gerir það það. Fylgist með fréttum og veit hvað er í gangi,“ segir Björn og bætir við: „Ég tel raunar að þetta eigi alveg sérstaklega við um þann hóp sem tók óverðtryggð lán á árunum 2020 og 2021. Sá hópur er, að ég tel, vanur að setjast reglulega yfir sín lánamál og spáir almennt mjög mikið í þessu. Oft hefur maður á tilfinningunni að þetta sé mun stærri hópur en hann raunverulega er því hann tekur svo virkan þátt í umræðunni.“
Mikilvægt að grípa til aðgerða
Björn segir þó eitthvað um að fólk í þessari stöðu sé ekki meðvitað um þær hækkanir sem bíði þess. „Fyrir fólk sem hefur ekki sett sig inn í þetta og er ekki meðvitað um snarhækkandi greiðslubyrðina, þá myndi ég tvímælalaust segja að það þurfa að gera það núna strax. Það er í rauninni mjög brýnt,“ segir Björn. Hann segist alltaf mæla með að lántakar skoði tvennt. „Í fyrsta lagi að þeir nái almennilegri yfirsýn yfir sín fjármál. Komist þannig að því hvert svigrúmið er til að standa undir hærri greiðslubyrði en það hefur búið við undanfarin ár. Er svigrúm til staðar til að draga úr neyslu eða skera niður útgjöld að einhverju marki? Er hægt að hætta að gera eitthvað sem kostar og nýta það svigrúm til að mæta þessum hækkunum? Þetta eru þættir sem fólk verður að skoða.“ Björn segir einnig mikilvægt að skoða stöðuna á lánamarkaði í dag. „Hvað er vaxtabyrðin að fara að hækka mikið að óbreyttu? Eru þetta tugir þúsunda um hver mánaðamót eða erum við tala um nokkur hundruð þúsund. Það fer allt eftir skuldsetningu, lengd lána og samsetningu. Í öllu falli stendur þessi hópur sem festi vextina frammi fyrir gríðarlegum hækkunum á sínum langstærsta útgjaldalið.“
Engir vænlegir kostir
Þegar fólk sé svo búið að kortleggja stöðuna og ná yfirsýn sé komið að því að ákveða hvort tilefni sé til að gera breytingar, að mati Björns. Skuldbreyta láninu og færa sig yfir í annað lánaform jafnvel. Færa sig yfir í verðtryggt lán, lengja lánstímann, greiða inn á lán ef svigrúm er til þess. Nú eða jafnvel greiða upp eða skuldbreyta óhagstæðum lánum ef veðrými hefur myndast með hærra fasteignamati.
Björn segir þetta allt standa og falla með góðri yfirsýn yfir eigin fjármál. „Stóra málið í þessu er að allt kostar þetta og það er mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir því.“ Björn bendir á að í tilfelli einhverra geti skynsamlegasta lausnin falist í því að gera alls engar breytingar og taka hækkunina á kassann. „En þá þarf líka að vera svigrúm til þess og sú ákvörðun byggir þá á væntingum um að ástandið muni skána á næstu misserum. Sem er náttúrulega það sem við vonum öll að gerist,“ segir Björn.
Fyrsta skrefið, að mati Björns, sé alltaf að bóka tíma hjá sinni lánastofnum. Setjast yfir valkostina og taka svo meðvitaða ákvörðun út frá eigin greiðslugetu og fjárhagsstöðu. „En þetta eru auðvitað ekkert sérstaklega fýsilegar aðstæður. Það verður bara að segjast eins og er,“ bætir hann við. „Kannski er bara best að gera sér grein fyrir að það eru engir vænlegir kostir í boði fyrir fólk með húsnæðislán í dag. En ef það er eitthvað sem við höfum lært af sveiflukenndum íslenskum lánamarkaði í gegnum tíðina þá er það að hlutirnir geta verið fljótir að breytast. Bæði til hins betra og til hins verra. Með það að vopni ættum við að geta vænst þess að hagur lántakenda vænkist áður en langt um líður. En þetta verður skellur fyrir marga. Það er alveg ljóst.“ segir Björn.
Heimilið >
Deila:
Fleira áhugavert
Tryggingar geta ýmist verið lögbundnar eins og ábyrgðartrygging ökutækja og brunatrygging fasteigna eða frjálsar eins og á við um kaskótryggingar, líf- og sjúkdómartryggingar o.fl.