Það getur verið hvimleitt að lenda í því að flugi seinkar og farþegar þurfi þannig að bíða eftir að komast loksins í loftið. Reglugerð um réttindi flugfarþega tryggir þó réttindi flugfarþega.
Reglugerðin er háð nokkrum breytum (svosem hversu löng seinkun er, hvert og hvaðan er verið að fljúga o.s.frv.), við mælum því með flugreikninum þar sem hægt er að slá inn upplýsingar og sjá hver rétturinn er. Það er ekki svo að þótt flugi seinkar um styttri tíma að það sé alltaf réttur til staðar.
Ef flugi seinkar um meira en 5 klst. að þá er talað um að það sé ígildi aflýsingar og þá fer um réttarstöðu flugfarþega eftir því – sjá nánar hér.
Helstu réttindi:
Réttur til aðstoðar
Burtséð frá ástæðu seinkunnar (jafnvel þó hún sé vegna verkfalls, veðurs eða náttúruhamfara), eiga flugfarþegar rétt á ákveðinni aðstoð frá flugrekanda, t.a.m. máltíðum og gistingu sé hennar þörf.
Samkvæmt reglugerðinni skal farþegum boðið eftirfarandi endurgjaldslaust þegar um er að ræða seinkun um tiltekinn tíma
1.
a) máltíðir og hressing í samræmi við lengd tafarinnar,
b) hótelgisting,
— ef farþegi neyðist til að bíða eina eða fleiri nætur eftir fari,
eða
— ef farþegi neyðist til að bíða lengur en hann gerði ráð fyrir,
c) flutning á milli flugvallar og gistiaðstöðu (hótel eða annað).
2.
Þar að auki skal farþegum boðið að hringja tvö símtöl eða senda skilaboð um fjarrita eða bréfsíma eða með tölvupósti þeim að kostnaðarlausu.
Ef seinkun er minni en tveir tímar í flugi sem er 1.500 km. eða styttra, minni en þrír tímar í flugi sem er 1.500-3.500 km. (flest Evrópuflug), eða minni en fjórir tímar í annars konar flugi stofnast þó enginn réttur samkvæmt reglugerðinni.
Ef farþegar þurfa sjálfir að kaupa sér máltíðir eða gistingu, þar sem flugrekandi býður þessa aðstoð ekki fram, eða ef erfitt er að fá skýr svör frá honum, er mikilvægt að passa vel upp á allar kvittanir svo hægt sé að fara fram á endurgreiðslu síðar.
Réttur til staðlaðra skaðabóta
Í sumum tilvikum geta farþegar jafnframt krafist skaðabóta vegna langrar seinkunar, en upphæðin fer eftir lengd flugsins sem um ræðir.
Upphæðirnar eru:
• 250 evrur fyrir öll flug sem eru 1.500 km eða styttri
• 400 evrur fyrir öll flug innan EES sem eru lengri en 1.500 km og fyrir öll önnur flug á bilinu 1.500 og 3.500 km
• 600 evrur fyrir öll flug sem ekki falla í flokkana tvo fyrir ofan.
Flugrekandi getur verið laus undan skaðabótaábyrgð ef hann sýnir fram á að seinkunin hafi verið af völdum óviðráðanlegra aðstæðna sem ekki hefði verið hægt að koma í veg fyrir jafnvel þótt allar nauðsynlegar ráðstafanir hefðu verið viðhafðar.
Þetta þýðir að þegar seinkun er af völdum einhvers sem flugrekandi hefur ekki stjórn á, er hann laus undan skaðabótaskyldu. Þetta á við þegar slæm veðurskilyrði hamla flugumferð, þegar náttúruhamfarir eins og eldgos eru, þegar tekin er ákvörðun í flugumferðarstjórn að stöðva flug, þegar um styrjaldir, hryðjuverk eða aðrar svipaðar aðstæður er að ræða.
Flugrekandi er almennt ekki laus undan skaðabótaskyldu ef seinkun er af völdum tæknilegra vandamála sem algeng eru í rekstri flugvéla. Þá gildir þetta bara um skaðabótaskylduna, en réttur farþegar til máltíða, gistingar o.s.frv. er eftir sem áður til staðar.
Úrræði
Þegar flugi er aflýst/seinkað um ákveðinn tíma þá gilda ákvæði Evrópureglugerðar nr. 261/2004 um réttindi flugfarþega. Þar er kveðið á um ýmis réttindi, en það fer eftir vegalengd flugs, hver ástæða seinkunar/aflýsingar er, ásamt því hversu löng seinkunin er.
Fyrsta skrefið fyrir farþega er að senda skriflega kröfu á flugfélagið telji þeir sig eiga rétt á stöðluðum skaðabótum eða aðrar kröfur á flugfélagið.
Ef flugfélagið hafnar kröfunni, eða svarar ekki innan nokkurra vikna, þá ráðleggjum við fólki að leita til okkar til nánari skoðunar á málinu.
Ef um er að ræða íslenskt flugfélag þá taka Neytendasamtökin að sér milligöngu fyrir sína félagsmenn. Hægt er að hafa samband með því að hringja í 545-1200 eða senda tölvupóst á Neytendasamtökin
Ef um er að ræða flugfélag sem staðsett er í einhverju landi innan Evrópusambandsins, í Noregi eða í Bretlandi þá geta farþegar leitað til ECC á Íslandi (sem hýst er af Neytendasamtökunum) og fengið endurgjaldslausar ráðleggingar, aðstoð og jafnvel milligöngu í málum gegn flugfélögum. Hægt er að hafa samband með því að hringja í aðalnúmer Neytendasamtakanna 545-1200 eða senda tölvupóst á Evrópsku neytendaaðstoðina, ECC á Íslandi.
Ef milliganga skilar ekki árangri, eða aðstæður eru með þeim hætti að nauðsynlegt er að fara beint með málið lengra, þá er Samgöngustofa eftirlitsaðili með regluverki um réttindi flugfarþega. Þannig er hægt að senda kvartanir til Samgöngustofu og óska eftir ákvörðun hennar í málinu ef t.d. uppi er ágreiningur um hvort að flugfélag beri að greiða staðlaðar skaðabætur.
Í sumum tilvikum bera flugfélög fyrir sig að ástæða seinkunar/aflýsingar er vegna óviðráðanlegra aðstæðna og þá þarf gjarnan að fá ákvörðun flugmálayfirvalda um hvort tilvik falli undir óviðráðanlegar aðstæður eða ekki. Flugfarþegar geta sent inn kvörtun vegna íslensks flugfélag rafrænt á heimasíðu Samgöngustofu hér.
Aðstoð frá ECC á Íslandi
Þarftu nánari upplýsingar? Skoðaðu heimasíðu ECC á Íslandi.
Þar sem það getur verið erfitt fyrir farþega að átta sig á réttindum sínum þá hefur Evrópska Neytendaaðstoðin (ECC) á Íslandi í samstarfi við Norska neytendaráðið veitt Íslendingum aðgang að „flugreikni“ á íslensku þar sem farþegar geta slegið inn forsendur flugraskana og fengið að sjá hver réttindi þeirra eru. Flugreikninn má nálgast hér að ofan.
Ef þú lendir í deilum við flugrekanda sem staðsettur er í landi innan Evrópusambandsins (eða í Noregi eða í Bretlandi) þá getur ECC á Íslandi aðstoðað þig án endurgjalds.
Deila:
Fleira áhugavert
Tryggingar geta ýmist verið lögbundnar eins og ábyrgðartrygging ökutækja og brunatrygging fasteigna eða frjálsar eins og á við um kaskótryggingar, líf- og sjúkdómartryggingar o.fl.