Gæðakannanir

Neytendasamtökin eru aðilar að ICRT (International Consumer Research and Testing). Hér á síðunni munu birtast gæðakannanir sem fyrst um sinn verða aðgengilegar fyrir alla, en verða síðan eingöngu opnar fyrir félagsmenn Neytendasamtakanna

2023

Loftsteikingarpottar (e. air fryers) hafa á síðustu misserum náð miklum vinsældum, svo miklum að heilu vörubrettin ku hafa verið rifin út. Neytendablaðið birti í vortölublaðinu 2023 gæðakönnun á loftsteikingarpottum. Hægt er að nálgast könnunina (ásamt því verði sem gefið var upp) hér. 

18 tegundir í gæðakönnun

Í gæðakönnun ICRT (International Consumer Research and Testing) eru alls 249 loftsteikingarpottar og af þeim fann Neytendablaðið 18 tegundir til sölu hér á landi. Heildareinkunn samanstendur af nokkrum þáttum:

Frammistaða – 55%

Einkunn fyrir þennan flokk samanstendur af þremur mismunandi prófum: eldunartíma, hitastýringu og svo aukaprófi sem snýst um að „elda“ köku í pottunum. Hægt er að nálgast nánari sundurliðun hér að neðan.

Eldunartímikönnun

Rannsakendur skoðuðu fyrst hversu langan tíma það tekur að elda tiltekið magn af kjúklingaleggjum, frönskum kartöflum og frosnum vorrúllum. Loftpottana er hægt að fá í ýmsum stærðum og því mjög misjafnt hversu mikið magn þeir geta eldað í einu. Minnsti loftsteikingarpotturinn í könnun ICRT tekur aðeins 533 grömm af frönskum kartöflum á meðan sá stærsti getur tekið allt að tveimur kílóum. Rétt er þó að hafa í huga að því stærri sem skammturinn er, því lengri tíma tekur að elda hann. Hægt er að sjá niðurstöðu „Eldunartíma“ hér.

Hitastýringkönnun

Næst var kannað hversu vel pottunum tókst að elda matinn. Þrír sérfræðingar voru fengnir til að meta lit, útlit og áferð eftir eldunina. Þar kom í ljós að sumum loftsteikingarpottunum tókst ekki að dreifa hitanum jafnt. Það lýsti sér meðal annars í því að í einum og sama skammtinum mátti bæði finna franskar sem voru brenndar og aðrar sem voru alveg ósteiktar. Í könnuninni var því gerður sérflokkur yfir það hversu góð „hitastýringin“ væri. Þannig er hægt að sjá hvernig einstakir loftsteikingarpottar standa sig í að „jafnelda“ franskar kartöflur.

Aukaprófkönnun

Loks var gerð tilraun til að baka annars vegar súkkulaðiköku og hins vegar böku. Þar sem pottarnir eru í raun að mörgu leyti svipaðir hefðbundnum blástursofnum á að vera hægt að baka kökur í þeim.

Orkunýtni – 15% 

Hér er skoðað hversu orkufrek tækin eru. Þessi þáttur fær nokkurt vægi, sem er eðlilegt þar sem orkuverð erlendis er víða mjög hátt. Hér á landi skiptir hann ef til vill minna máli.

Þægindi – 20% 

Hér koma til skoðunar þættir eins og leiðbeiningarnar sem fylgja tækinu, hversu auðvelt er að nota tækið og hversu góð sjálfvirku kerfin eru. Þá skiptir einnig máli hversu auðvelt er að þrífa pottana eftir notkun og hversu auðvelt er að geyma þá (svo sem hversu léttir og meðfærilegir þeir eru).

 

Gæði tækis – 5% 

Gæði þeirra efna sem eru notuð í tækin eru metin og hversu vel tækið er hannað.

Öryggi – 5% 

Hér er rafmagnsöryggi tækjanna metið, svo sem gæði hitavarnar og hvort einhverjar aukaöryggisráðstafanir séu til staðar (svo sem sérstakar varúðarleiðbeiningar).

2022

Í gæðakönnun Neytendablaðsins og ICRT (International Consumer Research and Testing) voru kannaðar 80 tegundir af heyrnartólum. 

Hægt er að nálgast könnunina í heild sinni hér.

Hvernig eru tækin metin?

Í könnuninni eru gefnar einkunnir í sjö mismunandi flokkum. Hver flokkur hefur mismunandi vægi, en einkunnir í hverjum flokki eru gefnar á skalanum 0–10.

Hljóðgæði – 50% 

Hljóðgæði voru metin af fimm sérfræðingum sem hlustuðu á fjölbreytta tónlist auk talmáls og mátu gæðin. Hljóðþrýstingur og tíðnisvið var einnig mælt. Þá var kannað í hversu miklum mæli hljóð barst út frá heyrnartólunum (e. emission), þ.e. hversu vel nálægir heyrðu hljóð sem heyrnartólin gáfu frá sér.

Gæði virkrar hljóðeinangrunar – 10% 

Mörg heyrnartól eru með svokallaða virka hljóðeinangrun (ANC – Active Noise cancelling). Hljóðeinangrunin var metin þannig að heyrnartólin voru útsett fyrir mismunandi umhverfishljóð að meðalstyrkleika 75dB. Einkunn byggði á því hversu vel heyrnartólin deyfðu óæskileg hljóð en þó var horft til þess að ákveðin hljóð næðu í gegn. Dæmi um það er þegar heyrnartól deyfa flugvélargný inni í vélinni en tilkynningar í hljóðkerfum flugvélarinnar heyrast.

Ef heyrnartól eru ekki með virka hljóðeinangrun hefur þessi þáttur ekkert vægi í heildareinkunn og er það auðkennt með skástriki í töflu.

Þægindi í notkun – 6%

Hér er skoðað hversu meðfærileg heyrnartólin eru. Metið er hversu auðvelt er að stilla þau, hvernig er að hafa þau á sér í lengri tíma og hvernig þau henta við íþróttaiðkun, en einnig hversu auðveld eða þægileg þau eru samhliða gleraugnanotkun.

Auðveldleiki í notkun – 14%

Hér eru ýmsir notkunarmöguleikar og eiginleikar heyrnartólanna skoðaðir. Meðal annars er tekið tillit til auðveldleika við uppsetningu, hversu þægilegir takkarnir eru, hvort tólin upplýsi um stöðu rafhlöðuhleðslu, hversu fljót þau eru að kveikja á sér, gæða hljóðnema og hvort hægt sé að tengja mörg bluetooth-tæki við tólin í einu.

Rafhlöðuending – 13,5%

Hér er mælt hversu lengi rafhleðslan endist. Það er gert með því að mæla tímann sem líður frá því að kveikt er á heyrnartólunum (með ANC-möguleika virkjaðan ef hann var fyrir hendi) þangað til það slökknar sjálfkrafa á þeim. Á meðan kveikt var á heyrnartólunum var notast við hljóðbút með hljóðstyrk upp á 80 dB. Þegar hleðslan var búin voru heyrnartólin hlaðin aftur í 15 mínútur og mælt hversu lengi rafhlaðan entist. Þá var einnig könnuð hleðsla á hleðsluhulstri (ef það var fyrir hendi).

Hleðslutími rafhlöðu – 1,5 %

Þessi þáttur fær mjög lítið vægi eða 1,5% en getur þó skipt marga máli. Skoðað er hversu langan tíma það tekur að hlaða heyrnartólin (og hleðsluhulstrið ef það er fyrir hendi) eftir að tólin slökkva sjálfkrafa á sér vegna tómrar rafhlöðu.

Ending – 5%

Lagt er mat á hversu vönduð framleiðslan er. Efnisval er skoðað og hversu burðug tengi og takkar eru. Heyrnartólin voru látin falla tíu sinnum á steingólf úr 1,8 metra hæð og í kjölfarið var skoðað hvort átökin hefðu haft áhrif á virknina. Þrjú eintök hverrar gerðar voru rannsökuð með þessum hætti. Þá voru heyrnartól sett á dúkkuhaus í sérstöku regntæki sem líkir eftir rigningu. Heyrnartólin voru síðan þurrkuð og skoðuð. Undir þessum þætti er einnig metið hversu auðvelt er að þrífa heyrnartólin og hvort það sé mögulegt án hættu á að valda skemmdum.

Í nýrri gæðakönnun bresku neytendasamtakanna Which? voru 55 tegundir af einnota AA rafhlöðum skoðaðar. Kannaðar voru rafhlöður frá þekktum framleiðendum sem og minna þekktum, auk rafhlaða merktum helstu verslunarkeðjum Bretlands. Hægt er að nálgast könnunina hér.

Algengt er að gefið sé til kynna á umbúðum að rafhlöðurnar séu öflugar. Slagorð eins og „Ultra power“, „Longlife“ og „Max Power“ eiga að sannfæra neytendur um að rafhlöðurnar séu öflugri en hjá samkeppnisaðilum. Erfitt er þó að bera saman slíkar fullyrðingar. Er til dæmis „Ultra power“ rafhlaða öflugri eða lakari en „Max power“? Gæðakönnunin svarar því.

Mikill munur á gæðum

Könnunin leiddi í ljós töluverðan gæðamun á rafhlöðum. Ef bestu rafhlöðurnar voru settar í orkufrek tæki (t.d. myndavél eða ljós) entust þær um þremur tímum lengur en rafhlöðurnar sem komu verst út. Væru þær hins vegar settar í miðlungsorkufrek tæki (svo sem jólaljós eða leikjatölvu) dugðu betri rafhlöðurnar allt að 14 tímum lengur. Vissulega þarf einnig að horfa á verðmuninn því ódýrari rafhlöður veita „ódýrari orku“ á hvern klukkutíma í notkun. Rafhlaða frá Aldi (Activ Energy) lenti til dæmis í þriðja sæti með heildareinkunnina. Rafhlaðan frá Aldi kostar 1.69 pund eða 277 kr. á meðan rafhlaðan sem vermir efsta sætið (Energizer Ultimate Lithium) kostar 7 pund eða 1.150 kr. Það er því töluverður verðmunur á þeim rafhlöðum sem lentu í fyrsta og þriðja sæti.

Hvað var kannað?

Í könnuninni voru tveir þættir skoðaðir; annars vegar hleðslurýmd (e. capacity) og hins vegar endingartími rafhlaðanna við mismunandi álag. Hleðslurýmd gildir 30% af hámarkseinkunn og endingartími 70%.

Til að kanna gæðin voru rafhlöðurnar settar í tölvustýrð tæki. Gert var ráð fyrir því að sams konar rafhlöður geti verið mismunandi eftir eintökum og því voru átta rafhlöður hverrar tegundar kannaðar. Þá var einnig gætt að því að fyrningartími allra rafhlaðanna væri sá sami sem og að hitastig rannsóknarstofunnar væri ávallt um 20°C. Endingartíminn var kannaður með þrenns konar álagsprófum. Fyrst voru rafhlöðurnar settar í tæki með háa orkunotkun (svo sem mótor eða leikfang), því næst í tæki með miðlungs orkunotkun (svo sem stafrænan hátalara) og loks í tæki með lága orkunotkun (svo sem útvarp eða klukku). Niðurstöðurnar voru svo skráðar eftir meðal-, hámarks- og lágmarks-endingartíma rafhlaðanna. Við mat á endingartíma höfðu tilraunirnar mismunandi vægi í einkunnargjöf. Mesta vægið hafði rannsókn í tækjum með hárri orkunotkun eða 50%.

Rafhlaðan „Ultimate Lithium AA“ frá Energizer fékk hæstu einkunn könnunarinnar. Hún entist afburða vel í orkufrekum tækjum svo sem í myndavélum. Rafhlaðan er með þeim dýrari og því væri það ef til vill bruðl að nota hana í sparneytin tæki, svo sem í fjarstýringar eða í klukkur.

Endurhlaðanlegar rafhlöður betri?

Endurhlaðanlegar rafhlöður eru gerðar úr svokölluðu „nickel-metal hydride (NiMH)“ og þær geta enst mjög lengi. Þær eru því ódýrari kostur en einnota rafhlöður og jafnframt betri fyrir umhverfið, þar sem förgun og endurvinnsla einnota rafhlaða hefur stórt umhverfisspor í för með sér. Ókosturinn við endurhlaðanlegar rafhlöður er þó sá að endingartími hleðslunnar er ekki eins langur. Gera má ráð fyrir 6-7 klukkustunda endingartíma hleðslu þegar rafhlöðurnar eru nýjar, en hann minnkar með tímanum.

Alkaline eða litíum einnota rafhlöður?

Einnota rafhlöður eru ýmist alkaline eða litíum. Litíumrafhlöður endast yfirleitt lengur í orkufrekum tækjum. Samkvæmt Wich? endast litíumrafhlöður  2-3 klukkustundum lengur en alkalinerafhlöður. En þær eru líka dýrari. Sé „orkuklukkutíminn“ reiknaður eru litíumrafhlöður óhagstæðari en góðar alkalinerafhlöður. Litíumrafhlöður er því góður kostur í aðstæðum þar sem er mikilvægt að verða ekki rafmagnslaus (svo sem á ferðalagi) en þær eru ekki endilega hagkvæmasti kosturinn.

Hvernig er best að farga rafhlöðum?

Í rafhlöðum má finna spilliefni sem eru hættuleg heilsu og umhverfi. Það er því afar mikilvægt að rafhlöðum sé skilað á sorpflokkunarstöðvar að notkun lokinni, en fari alls ekki í heimilissorpið. Margir söluaðilar rafhlaða og bensínstöðvar taka einnig við notuðum rafhlöðum. Samkvæmt Úrvinnslusjóði skila einungis um 40% rafhlaða sér í endurvinnslu. Gera má ráð fyrir að afgangurinn fari beint í ruslið með tilheyrandi umhverfisskaða.

Heimild: Which?

 

2021

Neytendasamtökin könnuðu úrvalið af farsímum hér á landi í lok mars 2021 og báru saman við gagnagrunn ICRT. Alls eru 89 farsímar í gæðakönnuninni að þessu sinni.

Apple og Samsung á toppnum

Nokkrir símar raða sér á toppinn og má þar nefna Apple Iphone 11 Pro Max, Samsung Galaxy Note 20 Ultra, Samsung Galaxy S21 Ultra, Apple Iphone 12 Pro Max og OnePlus 8 Pro. Það kemur sennilega fáum á óvart að Apple og Samsung vermi efstu sætin enda hafa þessi fyrirtæki verið ráðandi á markaðnum undanfarin ár.

Hvað var kannað?

Ýmsir þættir eru kannaðir sem samanlagt segja til um gæði símans. Hægt er að sjá einkunn í hverjum flokki fyrir sig og hvert vægi hans er við útreikning á heildareinkunn. Við hvetjum þá sem eru í farsímakaupahugleiðingum að skoða vel þá flokka sem þeim finnst skipta máli, en ekki eingöngu  heildareinkunnina. Fyrir suma getur þannig skipt meira máli hver rafhlöðuendingin er en gæði myndavélar en rafhlöðuending telur 15% af heildareinkunn á meðan myndavélin telur 25%.

Hér að neðan má sjá umfjöllun um þá þætti sem eru skoðaðir og hversu mikið vægi þeir hafa.

Töflu yfir 89 síma má sjá hér.

Myndavél og myndbönd – 25%

Gæði á myndbandsupptöku (bæði hljóð og mynd) og myndatöku símans eru metin.

Í myndatökuprófinu var skýrleiki myndanna metinn; gæði á myndum í dagsbirtu, innandyra og utandyra. Þá voru myndir í lágum birtuskilyrðum metnar með og án flass. Einnig var mælt hversu langan tíma það tekur að opna myndavélina og taka mynd. Þar sem margir símar eru nú með myndavélar bæði að framan og aftan voru allar myndavélar kannaðar.

Í myndbandsupptökuprófinu voru gæði myndbandsupptöku skoðuð ásamt möguleika símans á að þysja inn. Einnig voru eiginleikar myndbandsstöðuleikakerfis (Image Stabilizer) metnir, sem og hljóðgæði myndabandsupptaka.

Rafhlaða – 15%

Í rafhlöðuprófinu var annars vegar kannað hversu löng rafhlöðuendingin var og hins vegar hversu langan tíma það tók að hlaða rafhlöðuna. Rafhlöðuendingin var skoðuð út frá nokkrum þáttum; biðtíma, netnotkun, myndatöku, GPS notkun og taltíma. Hvert tæki var prófað tvisvar, fyrst með hæstu skjábirtu og svo með skjábirtu stillta á 300 nits.

Skjár – 15%

Skjágæði voru metin út frá upplausn, skjástærð, birtustigi og hversu auðvelt var að lesa af skjánum á hlið, innandyra við litla birtu og utandyra í mikilli birtu.

Frammistaða – 10%

Álagspróf voru framkvæmd 5 til 10 sinnum með sérstöku snjallforriti til að athuga hvort og þá hversu mikið sími myndi hitna. Á meðan álagsprófið var í gangi var heitasti hluti símans (skjár eða bakhlið) mældur með sérstökum innrauðum mæli.

Hljóð – 10%

Hljómgæði voru könnuð með hágæða heyrnartólum til að meta hvort einhver aukahljóð heyrðust við spilun tónlistar. Einnig var hljóðstyrkur tækisins metinn en sími var þá staðsettur einum metra frá hljóðnema þar sem hátalarinn á símanum sneri að hljóðnemanum og hljóðið mælt með sérstökum hugbúnaði.

Ending – 10%

Hér voru þrír þættir kannaðir, rispuþol á skjá, höggþol og vatnsþol.

Í rispuprófinu var notaður sérstakur penni til að kanna hvort skjár myndi rispast. Síminn fékk svo einkunn miðað við þann hámarksþrýsting sem hann þoldi án þess að varanlegar rispur mynduðust. Jafnframt var rispuþol myndavélar á símanum kannað.

Í höggprófinu var kveikt á símunum og þeir settir í nokkurs konar veltitæki til að líkja eftir falli úr 80 cm hæð. Símarnir voru skoðaðir eftir 25 föll og svo aftur eftir 50 hringi og skemmdir metnar. Virkni símana eftir prófraunina var síðan metin.

Þægindi í notkun  – 5%

Hér var athugað hversu þægilegt er að nota símann og halda á honum sem og viðmót, viðbragð á snertiskjá og hversu auðvelt var að ýta á takka.

Eiginleikar símtækis  – 5%

Hér var kannað hvaða eiginleika símtæki býður, GPS o.s.frv.

Hljómgæði símtala – 2%

Hér var bæði verið að skoða gæði hátalara og hljóðnema. Hljómgæðin frá símanum til viðtakanda voru metin (sender quality) sem og hljóðgæðin til símans (receiver quality). Í báðum tilfellum voru gæðin metin með umhverfishljóðum og án umhverfishljóða.

Öryggi – 2%

Framkvæmt var áhættumat á lykilorðum. Skoðað var hvort það væri síðar meir hægt að breyta lykilorði símans án þess að stimpla inn upphaflegt lykilorð, hvort auðvelt væri að brjótast inn í símann, hvort auðvelt væri að eyða öllum gögnum úr minni símans og hvort mögulegt væri að skoða eða fá aðgang að gögnum fyrri eiganda símans.

Persónuvernd – 1 %

Kannað var hversu mikils magns gagna frá notanda er krafist til þess að setja upp símann og jafnframt framkvæmt áhættumat. Þarna skipti máli hvort notandi gæti síðar meir afturkallað stillingarvalið sitt og hvort upplýsingar um áhrif þeirra stillinga sem notandi velur séu veittar á skýran máta. Jafnframt var kannað hvort skilmálar séu veittir á skýran og aðgengilegan hátt og hvort mögulegt sé að setja upp síma án þess að samþykkja skilmála farsímaframleiðandans.

 

Gæðakönnun á klósetthreinsi

Niðurstöður norrænnar gæðakönnunar á klósetthreinsi sýna að sumar tegundir gera lítið sem ekkert gagn á meðan aðrar standa fyrir sínu.

Dönsku, finnsku og sænsku neytendasamtökin gerðu gæðakönnun á klósetthreinsi og alls voru 33 tegundir prófaðar. Af þeim fann Neytendablaðið tíu tegundir hér á landi í apríl 2021. Gæðakönnunina má sjá hér

Gæðakönnun á ryksuguróbotum

  • Ryksuguróbotar koma ekki í stað gömlu og góðu ryksuganna en þeir geta létt þér verkið.

Það er ekki ýkja langt síðan ryksuguróbotar komu á markað og í dag má finna fjölda tegunda hér á landi á verðbili allt frá 30.000  – 250.000 kr. Vinsældir ryksuguróbota koma ekki á óvart enda mun einfaldara að senda róbotinn af stað í ryksöfnun en að ryksuga með gamla laginu.

Niðurstöður gæðakönnunar ICRT (International Research and Testing)  á ryksuguróbotum eru þó um margt áhugaverðar. Þær sýna að ryksuguróbotar eru takmörkunum háðir og komast ekki með tærnar þar sem hefðbundnar góðar ryksugur hafa hælana. Róbotarnir ráða einungis við slétt yfirborð, þeir lenda í vandræðum ef það er einhver fyrirstaða og því virka þeir best í rýmum með fáum húsgögnum. Þá ná þeir ekki að soga til sín ryk af sama krafti og hefðbundnar ryksugur.

 

20 tegundir í gæðakönnun NS

Neytendasamtökin könnuðu markaðinn hér á landi í október 2021 og fundu 38 tegundir af ryksugumróbotum. Af þessum 38 tegundum eru 20 í gagnagrunni ICRT. Einkunnir eru gefnar frá 0-10 og hæstu einkunn fær Neato Botvac D4 eða 6,2.

Í gæðakönnun ICRT má alls finna 259 tegundir af ryksuguróbotum. Þetta eru róbótar sem hafa á undanförnum árum verið skoðaðir á þar til gerðum rannsóknarstofum með stöðluðum aðferðum. Einkunnir eru almennt frekar lágar en hæstu einkunn fær Vorwerk eða 6,6 sem fæst ekki hér á landi og því næst koma tveir Neato róbotar, þar af einn fáanlegur hér á landi eins og áður segir. Athygli vekur að lítið samhengi virðist vera milli verðs og gæða og verðbil mjög breitt.

Engin tegund fær góða einkunn

Í umfjöllun sænska neytendablaðsins Råd och Rön segir að ryksuguróbotar vinni í raun ekki það verk sem þeim er ætlað. Þeir hreinsi ryk á sléttu yfirborði og henti vel til að ná upp myslnu en ekki ryki sem liggur í sprungum á parketi, í teppum eða úti í hornum. Róbotarnir séu því frekar á pari við sóp eða handryksugu og í nýjustu könnun sænsku samtakanna, sem kom út í september 2021, fékk engin tegund titilinn „Góð kaup“ né „Best í könnun“.

Ekki sú lausn sem vonast var eftir

Í umfjöllun Tænk, danska neytendablaðsins, segir að margir hafi hugsað sér gott til glóðarinnar þegar ryksuguróbotar komu fyrst fram á sjónarsviðið. Þar á meðal voru sveitarfélög sem sáu fram á sparnað við heimaþjónustu og áformuðu að útvega eldri borgurum ryksuguróbota til að sjá um þrifin. Það hafi því vakið mikla athygli árið 2012 þegar Tænk birti í fyrsta skipti gæðakönnun á ryksuguróbotum sem sýndi að þeim tækist illa að ná ryki sem situr í teppi. Þá ættu róbotarnir erfitt með að athafna sig í rýmum með mikið af hindrunum (stólum, borðum, leiðslum á gólfi og þess háttar). Ef einungis á að treysta ryksuguróbot fyrir því að hreinsa rykið þarf að innrétta þannig að hindrunum sé haldið í lágmarki. Í umfjöllun Tænk segir ennfremur að tækniþróunin hafi skilað sér í betri slátturóbotum en ryksuguróbotar hafi lítið þróast frá því þeir komu fyrst á markað.

Hvernig er könnunin gerð

Frammistaða – 40%

Hér var skoðað hversu vel róbotunum tekst að soga upp annarsvegar ryki og hinsvegar mylsnu af sléttum fleti, úr sprungum, úr hornum og úr teppi. Þegar kemur að hæfni róbotanna til að ryksuga (soga upp ryk, mylsnu dýrahár o.þ.h.) eru gerðar sömu kröfur og til hefðbundinna ryksuga þar sem eitt markmið þessara kannana er jú að bera róbotana saman við hefðbundnar ryksugur.


Stofa – 20%

Hér var skoðað hversu vel róbotunum tekst að þræða sig framhjá þeim hindrunum sem verða á veigi þeirra. Róbótarnir voru látnir athafna sig í rými sem sett er upp eins og stofa með lágum sófa, stólum, síðum gardínum, sjónvarpsborði, standlampa og leiðslum á gólfi.
Þessi „tilraunastofa“ hefur verið notuð í ryksuguróbotakönnunum ICRT frá því 2017 og þykir gefa góða mynd af þeim áskorunum sem róbotarnir þurfa að standast. Ryki er dreift um rýmið og síðan mælt hvort og hversu vel róbotunum tekst að soga það burt.


Orkunotkun – 6%

Orkunotkun er einnig metin og gefin einkunn út frá því hversu sparneytnir eða orkufrekir ryksuguróbotarnir eru.


Hávaði – 12%

Fyrir marga getur skipt máli hversu hljóðlátur ryksuguróbotinn er. Margar tegundir bjóða upp á tímastillingu þannig að hægt væri t.d. að stilla róbótinn þannig að hann sinni sínum störfum á meðan engin er á heimilinu. Í rannsókninni var hljóðið sem kemur frá ryksuguróbotunum á meðan þeir sinntu sínum störfum mælt með sérstökum hljóðnema sem staðsettur var í 1,6 metra hæð frá róbotanum.


Þægindi í notkun – 22%

Hér er skoðað m.a. hversu auðvelt er að tæma róbotana og hreinsa og hversu auðvelt er að stilla skipanir, hversu aðgengilegur leiðbeiningabæklingurinn er.

Gæðakönnunina má finna hér

Gæðakönnun á heilsu- og snjallúrum

Saga snjallúra er ekki mjög löng en árið 2013 kom fyrsta snjallúrið frá Samsung á markað og árið 2015 kom Apple með sína tegund; Apple Watch. Vinsældir þessara tækja eru miklar og því spáð að þær fari vaxandi.

Hver er munurinn á snjallúri og heilsuúri?

Í þessum gæðakönnunum má annars vegar sjá mat á heilsuúrum og hins vegar á snjallúrum. Tækin eru metin út frá sömu aðferðum en eini munurinn er að heilsumælinga-þátturinn fær mun meira vægi í könnuninni um heilsuúr á meðan „snjalltækni“ fær meira vægi í snjallúrakönnuninni.

Verð og gæði

Eins og svo oft kemur í ljós að ekki er endilega alltaf samhengi á milli verðs og gæða. Það skal hins vegar tekið fram að verðin sem sjá má í könnuninni miðast við leit Neytendasamtakanna á netinu í byrjun desember. Hugsanlegt er að finna megi lægri verð og eru neytendur nú, sem endranær, hvattir til að gera verðsamanburð fyrir kaup.

Í töflunum má einnig sjá tegundir sem ekki fundust hér á landi en þó er ekki loku fyrir það skotið þær fáist hér. Eru þessar tegundir teknar með þar sem verslun yfir landamæri er sífellt að aukast.

Hvernig eru tækin metin?

Tækin eru metin út frá ýmsum þáttum og gefin einkunn fyrir hvern þátt. Heildareinkunn segir svo til um hvernig tækið stendur sig í heild.

Heilsumæling

Skrefatalning: Skref eru mæld við 10 mínútna hlaup og 10 mínútna göngu en einnig við allskyns aðstæður svo sem við heimilisstörf, sitjandi við lestur og berandi innkaupapoka. Niðurstöður eru svo bornar saman við viðurkenndan skrefamæli (trusted step counter)

Vegalengd: Þeir sem prufuðu úrin gengu og hlupu ákveðna vegalengd á mismunandi undirlendi, svo sem á skógarstígum Í kjölfarið var skoðað hvort sú vegalengd sem úrið gaf upp væri í samræmi við þá vegalengd sem farin var.

Hjartsláttur/púls: Púls er mældur við mikið álag (við hlaup og hjólreiðar) og við hvíld. Niðurstöðurnar eru síðan bornar saman við gögn úr viðurkenndum púlsmæli/belti sem fest var yfir brjóstkassann.

Þægindi og gæði

Þægindi við notkun segir m.a. til um það hversu auðvelt er að nota úrið og hversu góður skjárinn er. Þá eru gæði tækisins metin, þ.e. gæði þeirra efna sem eru notuð í tækin, hvort það þoli álag, hversu auðveldega skjárinn rispast o.s.frv.

Rafhlaða

Mælt er hversu vel rafhlaðan endist miðað við notkun bæði að nóttu sem að degi. Ef um er að ræða snjalltæki er einnig tekið inn í myndina hversu vel rafhlaðan þolir símtöl og aðra notkun. Einnig er metið hversu lengi úrið er að hlaðast.

Notkun á smáforritum

Hér eru þátttakendur látnir meta notagildi, virkni og eiginleika smáforritsins, útlit þess, samstillingu við tækið og hraðann á upplýsingum sem milli tækisins og símans. Þá er einnig skoðað hvaða upplýsingum smáforritið býður upp á og hversu nákvæmar þær eru.

Snjalltækni

Þessi þáttur hefur mun meira vægi í snjallúrskönnuninni. Hér er skoðað og metið hvort og hversu vel tilkynningar um símtöl, tölvupósta og skilaboð berast frá síma í úrið og hversu auðvelt er að bregðast við tilkynningum og hringja símtöl. Einnig er möguleikinn á að stýra símanum með úrinu, svo sem að spila tónlist, metinn.

Gæðakönnun á snjallúrum má finna hér

Gæðakönnun á heilsuúrum má finna hér