Gæðakannanir

Neytendasamtökin eru aðilar að ICRT (International Consumer Research and Testing). Hér á síðunni munu birtast gæðakannanir sem fyrst um sinn verða aðgengilegar fyrir alla, en verða síðan eingöngu opnar fyrir félagsmenn Neytendasamtakanna

2021

Neytendasamtökin könnuðu úrvalið af farsímum hér á landi í lok mars 2021 og báru saman við gagnagrunn ICRT. Alls eru 89 farsímar í gæðakönnuninni að þessu sinni.

Apple og Samsung á toppnum

Nokkrir símar raða sér á toppinn og má þar nefna Apple Iphone 11 Pro Max, Samsung Galaxy Note 20 Ultra, Samsung Galaxy S21 Ultra, Apple Iphone 12 Pro Max og OnePlus 8 Pro. Það kemur sennilega fáum á óvart að Apple og Samsung vermi efstu sætin enda hafa þessi fyrirtæki verið ráðandi á markaðnum undanfarin ár.

Hvað var kannað?

Ýmsir þættir eru kannaðir sem samanlagt segja til um gæði símans. Hægt er að sjá einkunn í hverjum flokki fyrir sig og hvert vægi hans er við útreikning á heildareinkunn. Við hvetjum þá sem eru í farsímakaupahugleiðingum að skoða vel þá flokka sem þeim finnst skipta máli, en ekki eingöngu  heildareinkunnina. Fyrir suma getur þannig skipt meira máli hver rafhlöðuendingin er en gæði myndavélar en rafhlöðuending telur 15% af heildareinkunn á meðan myndavélin telur 25%.

Hér að neðan má sjá umfjöllun um þá þætti sem eru skoðaðir og hversu mikið vægi þeir hafa.

Töflu yfir 89 síma má sjá hér.

Myndavél og myndbönd – 25%

Gæði á myndbandsupptöku (bæði hljóð og mynd) og myndatöku símans eru metin.

Í myndatökuprófinu var skýrleiki myndanna metinn; gæði á myndum í dagsbirtu, innandyra og utandyra. Þá voru myndir í lágum birtuskilyrðum metnar með og án flass. Einnig var mælt hversu langan tíma það tekur að opna myndavélina og taka mynd. Þar sem margir símar eru nú með myndavélar bæði að framan og aftan voru allar myndavélar kannaðar.

Í myndbandsupptökuprófinu voru gæði myndbandsupptöku skoðuð ásamt möguleika símans á að þysja inn. Einnig voru eiginleikar myndbandsstöðuleikakerfis (Image Stabilizer) metnir, sem og hljóðgæði myndabandsupptaka.

Rafhlaða – 15%

Í rafhlöðuprófinu var annars vegar kannað hversu löng rafhlöðuendingin var og hins vegar hversu langan tíma það tók að hlaða rafhlöðuna. Rafhlöðuendingin var skoðuð út frá nokkrum þáttum; biðtíma, netnotkun, myndatöku, GPS notkun og taltíma. Hvert tæki var prófað tvisvar, fyrst með hæstu skjábirtu og svo með skjábirtu stillta á 300 nits.

Skjár – 15%

Skjágæði voru metin út frá upplausn, skjástærð, birtustigi og hversu auðvelt var að lesa af skjánum á hlið, innandyra við litla birtu og utandyra í mikilli birtu.

Frammistaða – 10%

Álagspróf voru framkvæmd 5 til 10 sinnum með sérstöku snjallforriti til að athuga hvort og þá hversu mikið sími myndi hitna. Á meðan álagsprófið var í gangi var heitasti hluti símans (skjár eða bakhlið) mældur með sérstökum innrauðum mæli.

Hljóð – 10%

Hljómgæði voru könnuð með hágæða heyrnartólum til að meta hvort einhver aukahljóð heyrðust við spilun tónlistar. Einnig var hljóðstyrkur tækisins metinn en sími var þá staðsettur einum metra frá hljóðnema þar sem hátalarinn á símanum sneri að hljóðnemanum og hljóðið mælt með sérstökum hugbúnaði.

Ending – 10%

Hér voru þrír þættir kannaðir, rispuþol á skjá, höggþol og vatnsþol.

Í rispuprófinu var notaður sérstakur penni til að kanna hvort skjár myndi rispast. Síminn fékk svo einkunn miðað við þann hámarksþrýsting sem hann þoldi án þess að varanlegar rispur mynduðust. Jafnframt var rispuþol myndavélar á símanum kannað.

Í höggprófinu var kveikt á símunum og þeir settir í nokkurs konar veltitæki til að líkja eftir falli úr 80 cm hæð. Símarnir voru skoðaðir eftir 25 föll og svo aftur eftir 50 hringi og skemmdir metnar. Virkni símana eftir prófraunina var síðan metin.

Þægindi í notkun  – 5%

Hér var athugað hversu þægilegt er að nota símann og halda á honum sem og viðmót, viðbragð á snertiskjá og hversu auðvelt var að ýta á takka.

Eiginleikar símtækis  – 5%

Hér var kannað hvaða eiginleika símtæki býður, GPS o.s.frv.

Hljómgæði símtala – 2%

Hér var bæði verið að skoða gæði hátalara og hljóðnema. Hljómgæðin frá símanum til viðtakanda voru metin (sender quality) sem og hljóðgæðin til símans (receiver quality). Í báðum tilfellum voru gæðin metin með umhverfishljóðum og án umhverfishljóða.

Öryggi – 2%

Framkvæmt var áhættumat á lykilorðum. Skoðað var hvort það væri síðar meir hægt að breyta lykilorði símans án þess að stimpla inn upphaflegt lykilorð, hvort auðvelt væri að brjótast inn í símann, hvort auðvelt væri að eyða öllum gögnum úr minni símans og hvort mögulegt væri að skoða eða fá aðgang að gögnum fyrri eiganda símans.

Persónuvernd – 1 %

Kannað var hversu mikils magns gagna frá notanda er krafist til þess að setja upp símann og jafnframt framkvæmt áhættumat. Þarna skipti máli hvort notandi gæti síðar meir afturkallað stillingarvalið sitt og hvort upplýsingar um áhrif þeirra stillinga sem notandi velur séu veittar á skýran máta. Jafnframt var kannað hvort skilmálar séu veittir á skýran og aðgengilegan hátt og hvort mögulegt sé að setja upp síma án þess að samþykkja skilmála farsímaframleiðandans.

 

Gæðakönnun á klósetthreinsi

Niðurstöður norrænnar gæðakönnunar á klósetthreinsi sýna að sumar tegundir gera lítið sem ekkert gagn á meðan aðrar standa fyrir sínu.

Dönsku, finnsku og sænsku neytendasamtökin gerðu gæðakönnun á klósetthreinsi og alls voru 33 tegundir prófaðar. Af þeim fann Neytendablaðið tíu tegundir hér á landi í apríl 2021. Gæðakönnunina má sjá hér

Gæðakönnun á ryksuguróbotum

  • Ryksuguróbotar koma ekki í stað gömlu og góðu ryksuganna en þeir geta létt þér verkið.

Það er ekki ýkja langt síðan ryksuguróbotar komu á markað og í dag má finna fjölda tegunda hér á landi á verðbili allt frá 30.000  – 250.000 kr. Vinsældir ryksuguróbota koma ekki á óvart enda mun einfaldara að senda róbotinn af stað í ryksöfnun en að ryksuga með gamla laginu.

Niðurstöður gæðakönnunar ICRT (International Research and Testing)  á ryksuguróbotum eru þó um margt áhugaverðar. Þær sýna að ryksuguróbotar eru takmörkunum háðir og komast ekki með tærnar þar sem hefðbundnar góðar ryksugur hafa hælana. Róbotarnir ráða einungis við slétt yfirborð, þeir lenda í vandræðum ef það er einhver fyrirstaða og því virka þeir best í rýmum með fáum húsgögnum. Þá ná þeir ekki að soga til sín ryk af sama krafti og hefðbundnar ryksugur.

 

20 tegundir í gæðakönnun NS

Neytendasamtökin könnuðu markaðinn hér á landi í október 2021 og fundu 38 tegundir af ryksugumróbotum. Af þessum 38 tegundum eru 20 í gagnagrunni ICRT. Einkunnir eru gefnar frá 0-10 og hæstu einkunn fær Neato Botvac D4 eða 6,2.

Í gæðakönnun ICRT má alls finna 259 tegundir af ryksuguróbotum. Þetta eru róbótar sem hafa á undanförnum árum verið skoðaðir á þar til gerðum rannsóknarstofum með stöðluðum aðferðum. Einkunnir eru almennt frekar lágar en hæstu einkunn fær Vorwerk eða 6,6 sem fæst ekki hér á landi og því næst koma tveir Neato róbotar, þar af einn fáanlegur hér á landi eins og áður segir. Athygli vekur að lítið samhengi virðist vera milli verðs og gæða og verðbil mjög breitt.

Engin tegund fær góða einkunn

Í umfjöllun sænska neytendablaðsins Råd och Rön segir að ryksuguróbotar vinni í raun ekki það verk sem þeim er ætlað. Þeir hreinsi ryk á sléttu yfirborði og henti vel til að ná upp myslnu en ekki ryki sem liggur í sprungum á parketi, í teppum eða úti í hornum. Róbotarnir séu því frekar á pari við sóp eða handryksugu og í nýjustu könnun sænsku samtakanna, sem kom út í september 2021, fékk engin tegund titilinn „Góð kaup“ né „Best í könnun“.

Ekki sú lausn sem vonast var eftir

Í umfjöllun Tænk, danska neytendablaðsins, segir að margir hafi hugsað sér gott til glóðarinnar þegar ryksuguróbotar komu fyrst fram á sjónarsviðið. Þar á meðal voru sveitarfélög sem sáu fram á sparnað við heimaþjónustu og áformuðu að útvega eldri borgurum ryksuguróbota til að sjá um þrifin. Það hafi því vakið mikla athygli árið 2012 þegar Tænk birti í fyrsta skipti gæðakönnun á ryksuguróbotum sem sýndi að þeim tækist illa að ná ryki sem situr í teppi. Þá ættu róbotarnir erfitt með að athafna sig í rýmum með mikið af hindrunum (stólum, borðum, leiðslum á gólfi og þess háttar). Ef einungis á að treysta ryksuguróbot fyrir því að hreinsa rykið þarf að innrétta þannig að hindrunum sé haldið í lágmarki. Í umfjöllun Tænk segir ennfremur að tækniþróunin hafi skilað sér í betri slátturóbotum en ryksuguróbotar hafi lítið þróast frá því þeir komu fyrst á markað.

Hvernig er könnunin gerð

Frammistaða – 40%

Hér var skoðað hversu vel róbotunum tekst að soga upp annarsvegar ryki og hinsvegar mylsnu af sléttum fleti, úr sprungum, úr hornum og úr teppi. Þegar kemur að hæfni róbotanna til að ryksuga (soga upp ryk, mylsnu dýrahár o.þ.h.) eru gerðar sömu kröfur og til hefðbundinna ryksuga þar sem eitt markmið þessara kannana er jú að bera róbotana saman við hefðbundnar ryksugur.


Stofa – 20%

Hér var skoðað hversu vel róbotunum tekst að þræða sig framhjá þeim hindrunum sem verða á veigi þeirra. Róbótarnir voru látnir athafna sig í rými sem sett er upp eins og stofa með lágum sófa, stólum, síðum gardínum, sjónvarpsborði, standlampa og leiðslum á gólfi.
Þessi „tilraunastofa“ hefur verið notuð í ryksuguróbotakönnunum ICRT frá því 2017 og þykir gefa góða mynd af þeim áskorunum sem róbotarnir þurfa að standast. Ryki er dreift um rýmið og síðan mælt hvort og hversu vel róbotunum tekst að soga það burt.


Orkunotkun – 6%

Orkunotkun er einnig metin og gefin einkunn út frá því hversu sparneytnir eða orkufrekir ryksuguróbotarnir eru.


Hávaði – 12%

Fyrir marga getur skipt máli hversu hljóðlátur ryksuguróbotinn er. Margar tegundir bjóða upp á tímastillingu þannig að hægt væri t.d. að stilla róbótinn þannig að hann sinni sínum störfum á meðan engin er á heimilinu. Í rannsókninni var hljóðið sem kemur frá ryksuguróbotunum á meðan þeir sinntu sínum störfum mælt með sérstökum hljóðnema sem staðsettur var í 1,6 metra hæð frá róbotanum.


Þægindi í notkun – 22%

Hér er skoðað m.a. hversu auðvelt er að tæma róbotana og hreinsa og hversu auðvelt er að stilla skipanir, hversu aðgengilegur leiðbeiningabæklingurinn er.

Gæðakönnunina má finna hér